Að undanförnu hefur varðskipið Týr verið við eftirlitsstörf á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg, á NEAFC-svæðinu svonefnda.
Þegar varðskipið kom á svæðið á dögunum voru þar 11 rússneskir togarar að veiðum. Að þessu sinni var ekki farið um borð í skipin heldur voru þau skoðuð með eftirlitskerfum og þau mynduð.
Rússnesku skipin voru við veiðar á lögsögumörkunum þegar Týr kom á svæðið en færðu sig þá örlítið utar eftir komu varðskipsins á miðin.
Á bakaleiðinni gerði hluti áhafnarinnar sér lítið fyrir og synti yfir línuna sem markar 200 sjómílna efnahagslögsöguna. Veðrið var með ágætum og sundspretturinn inn í efnahagslögsöguna gekk eins og í sögu.