Glúmur Baldvinsson er með BA-gráðu í stjórnmálafræði og hagfræði frá Háskóla Íslands, MSc-gráðu í alþjóðasamskiptum og Evrópufræðum frá London School of Economics og MA-gráðu í alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum frá University of Miami.
Glúmur er líka Vestfirðingur eins og flestir lesendur vita og fetar í fótspor fjölskyldunnar með að láta til sín taka í stjórnmálum. Glúmur er fæddur 1966, reyndar í Reykjavík en er kornungur þegar hann kemur til Ísafjarðar, í sína föðurheimasveit og elst þar upp.
Um Vestfirði segir Glúmur: “Mér þykir afar vænt um vestfirskan uppruna minn og þau ógleymanlegu
æskuár sem ég átti á Ísafirði. Ég á stóran frændgarð um alla Vestfirði.”
Snúum þá aftur að Glúmi og stjórnmálum, Glúmur er í framboði fyrir Frjálslynda Lýðræðisflokkinn og hefur ekki ennþá gert upp hug sinn hvort Reykjavík eða Norðvesturkjördæmi verður fyrir valinu. Með hans orðum: “Ég hef enn ekki ákveðið hvar ég ætla fram. Það freistar mín að fara fram í Norðvestur, enda myndi ég gjarnan vilja berjast fyrir hagsmunum okkar Vestfirðinga, sem hafa borið skarðan hlut af þjóðartekjum þegar kemur að sjávarútvegi, túrisma og samgöngum.”
Það liggur þá næst fyrir að spyrja Glúm, af hverju Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn?
“Ég er krati í anda Alþýðuflokksins sáluga. Kratinn velur millileiðina og segir: nýtum kapítalismann en
beislum hann til að búa til öflugt og auðugt samfélag þar sem allir þegnarnir geta notið ágóðans sem felst í öflugu heilbrigðis- og menntakerfi, samtryggingu og félagskerfi og öflugum samgöngum svo það helsta sé nefnt. Sumsé, á Íslandi í dag er ekki til krataflokkur. Alþýðuflokkurinn rann inn í
Samfylkinguna og hefur ekki fundist síðan. Hann er horfinn. Svo ég finn ekki krataflokk hér en ég fann Frjálslynda lýðræðisflokkinn. Þar tek ég stóran þátt í að móta stefnuna og þess vegna valdi ég þann flokk. Þar fyrir utan er ekki eins og að mikil eftirspurn sé eftir mínum kröftum í öðrum íslenskum flokkum.
Hvað með Samfylkinguna?
“Samfylkingin er ekki krataflokkur heldur kredduflokkur snobbaðrar menntaelítu og femínistafasista sem telur sig upphafna yfir aðra í þeirri góðu viðleitni sinni að bjarga heiminum og móta í eigin mynd. Hvaða flokki dettur til dæmis í hug að einblína á grænkerafæði og últrafemínisma í stað þess að fókusera á aðalatriðin, sem eru misskipting auðs í þessu samfélagi? Hvar er kratisminn? Þessi flokkur og Vinstri grænir og sósíalistar minna mig á fasista sem vilja segja fólki, hvernig það á að lifa lífi sínu. Kratar blanda sér ekki í einkalíf fólks heldur fókusera á stóru málin. Berjast gegn spillingu, spilltu kvótakerfi og misskiptingu auðs í landinu. “
Hver eru helstu málin fyrir Vestfirðinga að þínu mati?
Svarað var með spurningum: “Hvernig má það líðast, að Vestfirðingar sem búa við okkar fengsælustu fiskimið geti ekki dregið fram lífið á sjávarútvegi? Á að sætta sig við það til eilífðarnóns að gerspillt kvótakerfi meini Vestfirðingum að njóta ávaxtana af auðlindum sínum? Og hvernig stendur á því að núna árið 2021 þurfi menn að keyra um grýtta kafla og ónýtt malbik í sex tíma frá höfuðborginni til Bíldudals eða Ísafjarðar, einsog ég geri aðra hverja viku? Í Færeyjum er búið að tengja allar eyjarnar með göngum og þau nýjustu með hringtorgi. En Vestfirðir eru enn fjarlægir höfuðborginni og landskerfinu eins og þeir voru, þegar ég var barn og við fjölskyldan ferðuðumst reglulega frá Ísafirði til Reykjavíkur. Framfarirnar eru fátæklega litlar á síðustu 40 árum. Og hvernig stendur á því að fólk vilji banna Vestfirðingum að efla
atvinnulíf sitt með fiskeldi og sér í lagi laxeldi? Þarna eru nú gríðarlegir möguleikar og maður sér hvernig mannlífið er að taka kipp þar um slóðir nú vegna laxeldisins með sínum afleidda ávinningi í
formi starfa og hagsældar. Á að banna það vegna umhverfisssjónarmiða? Ég veit að enginn annar iðnaður á Íslandi er undir eins miklu eftirliti kerfisins eins og laxeldið. Þekki það af eigin reynslu,
starfandi í Arnarfirði. Og menn benda á vonda hluti sem upp hafa komið, frá því laxeldið fór að þróast erlendis eins og í Noregi, Færeyjum og Skotlandi. Staðan er allt önnur í dag. Menn hafa lært af reynslunni og nú fylgir þessi atvinnugrein ýtrustu og ströngustu skilyrðum og reglum og dafnar sem aldrei fyrr.
Hlustum ekki á bullið í öfga-umhverfissinum sem aldrei hafa komið til Vestfjarða og aldrei migið í saltan sjó.”
Af hverju í framboð núna en ekki fyrr?
“Svarið við því er einfalt. Þegar ég var ungur átti ég fyrirferðamikla foreldra í þessu samfélagi. Ég vissi að afi minn var merkilegur stjórnmálamaður, og svo tók faðir minn við. Ég var feiminn ungur maður og ákvað að skipta mér ekki af þessu. Forfeður mínir hefðu staðið sína plikt og ekki beint verið verðlaunaðir mikið fyrir það, heldur fengið yfir sig endalaust skítkast og almenn leiðindi. Ekki beint heillandi framtíðarsýn fyrir mig ungan manninn. Að auki vissi ég ekki hvort ég hefði þroska eða andlegan styrk eða hæfileika í þetta stúss.”
En var svo tíminn kominn?
Með aldrinum hefur mér vaxið styrkur og skilningur á samfélaginu. Ég hef reynt á eigin skinni að lífið er ekki bara dans á rósum. Og ég sé að það er svo margt sem má bæta í þessu samfélagi. Og ég hef öðlast
trú á, að ég ég geti haft eitthvað með það að gera að betrumbæta íslenskt samfélag framtíðar.
Að lokum
“Ég er ekki að gefa kost á mér af því að til þess er ætlast af mér, af því að ég er sonur Jóns Baldvins og afkomandi Hannibals. Ég er að gefa kost á mér, af því ég vil leggja mitt af mörkum til að jafna leikinn í þessu samfélagi. Og mér finnst eins og það sé köllun sem ég verði að láta á reyna. Ef mér verður hafnað er það allt í góðu lagi mín vegna. En ég get þó alltaf sagt við sjálfan mig. Glúmur þú reyndir þó.”