Friðlýsingarskilmálar þjóðgarðs – þörf á upplýstri umræðu

Orkubú Vestfjarða (OV) hefur ritað sveitarfélögum á Vestfjörðum ásamt Vestfjarðastofu, bréf vegna friðlýsingarskilmála þjóðgarðs sem áformaður er á sunnanverðum Vestfjörðum.  Athygli Vestfirðinga er hér vakin á málinu vegna mikilla hagsmuna hvað varðar afhendingaröryggi raforku til Vestfirðinga og vestfirskra fyrirtækja.  Lítið hefur farið fyrir umræðunni til þessa og athugasemdir sem voru sendar inn fyrir rúmum fjórum mánuðum hafa ekki verið birtar opinberlega.  Athugasemdarferlinu við friðlýsingarskilmálana sjálfa lýkur innan tveggja vikna, 26. maí nk.,  án þess að athugasemdir hagsmunaaðila eða almennings um áformin hafi komið fyrir sjónir almennings.  Þær athugasemdir sem OV sendi inn þ. 31. 12. 2020 má lesa hér:  https://www.ov.is/asset/4414/2020_12_31_umsogn_ov.pdf
en tillögu umhverfisstofnunar og starfshóps um friðlýsingarskilmála fyrir þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum má finna hér. <a href=“https://ust.is/library/sida/Nattura/Tillaga%20fri%c3%b0l%c3%bdsing%20%c3%bej%c3%b3%c3%b0gar%c3%b0s.pdf“


Verulegar athugasemdir gerðar við tillögu að friðlýsingarákvæðum

Orkubú Vestfjarða  lítur á það sem skyldu sína að vekja athygli Vestfirðinga á sjónarmiðum um orkuframleiðslu og orkuflutning innan fyrirhugaðra marka þjóðgarðs, enda um verulega hagsmuni fyrir Vestfirðinga að ræða.  Lítil umræða hefur átt sér stað um drögin og vill OV vekja athygli á því að samkvæmt skilmálunum er engin orkunýting leyfð auk þess sem óbreytt staða flutningskerfis raforku er fest í sessi. 

Tillagan gengur í berhögg við stefnur og samninga

Óbreytt tillaga virðist ganga í berhögg við yfirlýsta stefnu stjórnvalda sem fram kemur í þingsályktun frá 2018.  Ennfremur virðist hún ganga gegn ályktunum Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar frá því í febrúar á þessu ári.  Þá er hún ekki í samræmi við undirritað samkomulag ríkissjóðs við RARIK, sem undirritað var við afhendingu jarðarinnar Dynjanda til ríkisins árið 2019.  Þá virðist tillagan vinna fremur gegn loftslagsmarkmiðum stjórnvalda en með þeim, vegna óbreyttrar þarfar fyrir varaafl innan svæðisins.

Orkuflutningur – yfirlýst stefna stjórnvalda í þingsályktun

Í friðlýsingartillögunni er viðhald og þjónusta við núverandi raflínur heimiluð.  Þær flutningslínur sem viðhald er heimilað á eru aðalflutningslínur raforku fyrir 89% Vestfirðinga.  Línurnar eru hins vegar byggðar fyrir 1980 og er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir því að þær þarfnist endurnýjunar, hugsanlega með nýrri hönnun í takt við tímann, á næstu árum eða áratugum.

Ekkert er minnst á frekari uppbyggingu raforkukerfisins t.d. tvöföldun flutningslína í friðlýsingartillögunni og er rétt í því sambandi að minna á samþykkta þingsályktunartillögu frá 148. Löggjafarþingi 2017-2018. https://www.althingi.is/altext/148/s/1244.html, en í tillögunni stendur m.a.   „Allir afhendingarstaðir í meginflutningskerfinu skulu árið 2030 vera komnir með tengingu sem tryggi að rof á stakri einingu valdi ekki takmörkunum á afhendingu eða afhendingarrofi.“

Ókleyft verður að tvöfalda flutningslínur

Það er mat Orkubús Vestfjarða að ókleyft verði að tvöfalda flutningslínurnar innan friðlýsingarsvæðisins gangi áformin eftir óbreytt.  Þá verði einnig ókleyft að byggja upp öflugri línur í stað þeirra rúmlega 40 ára gömlu flutningslína sem fyrir eru þar sem friðlýsingarskilmálarnir leyfa slíkt ekki.  Útilokað verður að vera með tvöfalda tengingu við afhendingarstað Landsnets í Mjólká, en afhendingarstaðurinn hefur gjarnan verið nefndur hjartað í raforkukerfi Vestfjarða.

Athugasemdir við áform eru ekki komnar í almenna umræðu ennþá

Orkubú Vestfjarða hefur því miður ekki fengið aðgang að upplýsingum um hvaða athugasemdir voru gerðar við „áform um friðlýsingu“ fyrir tilskilinn tíma 31.12. 2020, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  Ætla má að þær athugasemdir væru upplýsandi fyrir almenning, sveitarstjórnir, og fyrirtæki á Vestfjörðum.  OV hafði gert ráð fyrir að allar umsagnir í svo mikilvægu máli yrðu í ferlinu gerðar opinberar sem fyrst, til að tryggja upplýsta umræðu á meðal almennings.  Umsagnir sem sendar voru inn fyrir meira en fjórum mánuðum hafa þó ekki verið birtar ennþá og ómögulegt virðist vera að fá að þeim aðgang.  OV bauð jafnframt í umsögn sinni upp á kynningu á orkunýtingarmöguleikum á svæðinu, en það boð hefur ekki verið þegið.  

Orkunýting – hvað heimilar tillagan og hvað ekki

Ekkert er minnst á mögulega orkuvinnslu í tillögunum, en innan friðlýsingarsvæðisins í Vatnsfirði, eru a.m.k. þrír möguleikar á orkuvinnslu, samtals 20 til 30 MW.  Þessir virkjunarmöguleikar væru þeir nýttir, myndu gjörbreyta raforkuöryggi á Vestfjörðum auk þess að hafa veruleg áhrif á uppbyggingarmöguleika og mögulega nýsköpun í vestfirsku atvinnulífi.  Samkvæmt þeim drögum að friðlýsingarskilmálum sem liggja fyrir, þá er það eitt af markmiðum friðlýsingarinnar að „vernda alla árfarvegi“, sem þýðir í raun að græn orkuframleiðsla í formi vatnsaflsvirkjana yrði bönnuð.

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá væri hægt að fara í framangreinda orkunýtingu án þess að hreyfa á nokkurn hátt við vatnasviði Dynjanda.

Umræðan, orkuskiptin og loftslagsmálin

Orkubú Vestfjarða vill hvetja til opinnar umræðu um friðlýsingu á sunnanverðum Vestfjörðum.  Miklir hagsmunir Vestfirðinga sem snúa að orkunýtingu, orkuflutningi og dreifingu tengjast umræddri friðlýsingu og því er það mikið hagsmunamál fyrir íbúa og atvinnulíf á Vestfjörðum að hægt sé að samræma áform um friðlýsingu þeim hagsmunum. 

Samræming friðlýsingar við orkuframleiðslu og -flutning snýst m.a. um að hægt verði að efla atvinnulíf og íbúaþróun á Vestfjörðum ásamt því að  tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum til næstu áratuga.  Síðast en ekki síst snýst það um möguleika Vestfirðinga til að vinna með orkuskiptum á landi og á sjó og leggja þannig sitt af mörkum í loftslagsmálum.

Verkefni samstarfshóps um þjóðgarð og áherslur
Í fyrstu fundargerð samstafshóps um þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum sem kom saman þann 8. október 2020, kemur fram að bæjarstjórar Ísafjarðabæjar og Vesturbyggðar sitja í hópnum f.h. sveitarfélaganna og áttu því sveitarfélögin tvo fulltrúa af átta fulltrúum í hópnum.  Í hópnum sitja jafnframt tveir fulltrúar f.h. Umhverfisstofnunar, einn fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, einn fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og einn fulltrúi forsætisráðuneytisins ásamt fulltrúa Landgræðslusjóðs.   

Það vekur athygli að enginn fulltrúi er frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í hópnum, sem er umhugsunarvert, eftir á að hyggja, en bendir til að huga hefði mátt betur að fleiri sjónarmiðum sem nauðsynlegt er að taka til umræðu við ákvarðanir um friðun, s.s. sjónarmiðum um orkunýtingu og flutning raforku.

Á fyrsta fundi samstarfsnefndarinnar 8. 10. 2020, var bókað:

„Rætt var um mikilvægi þess að kynna málið mjög vel og kalla eftir athugasemdum um áform um þjóðgarð. Útskýra þyrfti vel hvað þjóðgarður þýddi þegar áform færu í kynningu. Einnig var lögð áhersla á að ræða mögulegan þjóðgarð með tilliti til ýmissa framkvæmda s.s. samgöngumála og flutningskerfi raforku, þar sem þetta væru áherslumál á Vestfjörðum.“  (leturbr. EJ)

Strax á fyrsta fundi er ljóst að fulltrúar sveitarfélaganna hafa bent á nauðsyn þess að tekið sé tillit til innviðauppbyggingar á svæðinu í allri umfjöllun um friðun.  Það kemur ekki á óvart í ljósi þess að orkumál hafa verið eitt þeirra mála sem hafa verið efst á baugi varðandi hagsmuni Vestfirðinga í áratugi.  Því má ætla að ástæða sé til að staldra við áður en tekin er ákvörðun sem mun hafa mjög veruleg áhrif á möguleika til að bæta innviði vegna orkuflutninga og orkuvinnslu á Vestfjörðum, ef svo fer sem horfir.

Ekkert tillit hefur verið tekið til ábendinga

Skemmst er frá því að segja að ekki verður séð að neitt tillit hafi verið tekið til ábendinga Orkubús Vestfjarða hvað varðar orkuflutning og orkuframleiðslu við gerð tillögu um friðlýsingu.  Ómögulegt er að sjá hvort tekið hefur verið tillit til annarra ábendinga, enda hafa þær hvergi verið kynntar. 

Samkomulag ríkisins frá 16. September 2019

Ekki er heldur hægt að greina það í tillögunni að tekið hafi verið tillit til samkomulags á milli Ríkissjóðs Íslands og RARIK sem undirritað var við afhendingu RARIK á jörðinni Dynjanda til ríkisins.  Í 3. gr. samningsins segir m.a.:

„Í friðlýsingarskilmálum svæðisins við Dynjanda verður tryggt að núverandi raflínur sem liggja um land jarðarinnar geti staðið þar áfram með eðlilegri endurnýjun og eftir atvikum að unnt verði að leggja nýjar raflínur til að styrkja innviði raforkuflutnings og -dreifingar á Vestfjörðum enda verði farið að almennum lögum sem gilda um slíkar framkvæmdir, s.s. lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.“  (leturbr. EJ)

Hér er það auðvitað lykilatriði hvað telst eðlileg endurnýjun og hvað þýðir það að „unnt verði að leggja nýjar raflínur til að styrkja innviði raforkuflutnings og -dreifingar á Vestfjörðum..“

Ætlun gefanda jarðarinnar RARIK með undirritun samkomulagsins verður ekki misskilin og ekki er hægt að gera ráð fyrir öðru en að ríkið muni uppfylla þetta nýgerða samkomulag.  Af þeirri ástæðu einni saman verður að gera ráð fyrir að friðlýsingarskilmálum verði breytt.

Bókanir sveitarfélaga í febrúar 2021 eru með orkunýtingu innan þjóðgarðs
Bæði Ísafjarðarbær og Vesturbyggð hafa bókað um orkunýtingu og orkuflutning innan væntanlegs þjóðgarðs.  Þar kemur glögglega fram að hugur sveitarstjórnarmanna er almennt með friðlýsingu sem þó heimilar orkunýtingu og flutning raforku innan marka þjóðgarðs.  Bókanir sveitarfélaganna eru samhljóða hvað þetta varðar:


Úr bókun Ísafjarðarbær 18. febrúar 2021 og bókun Vesturbyggðar 17. febrúar 2021:

„Við áframhaldandi undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðsins leggur bæjarstjórn áherslu á að gætt verði að nauðsynlegri innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins. Þá verði ekki settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.“ (leturbr. EJ)

Breytingartillaga við friðlýsingarskilmálana getur leyst málið
Breytingar á tillögunni um friðlýsingarskilmála eða aðlögun marka svæðisins geta þó hæglega leyst þá agnúa sem hér hafa verið raktir þannig að málin leysist farsællega.  Friðlýsingarskilmálar sem tækju tillit til nauðsynlegra innviða vegna orkuflutnings og vegna orkunýtingar innan Vatnsfjarðar væru einmitt í samræmi við samþykktir sveitarfélaga og stefnur og samninga stjórnvalda.  Virkjun á þessu svæði mundi jafnframt auka verulega möguleikana á lagningu jarðstrengja í flutningskerfinu á háu spennustigi, í stað loftlína.  Eðlilegt væri því að tiltaka í friðlýsingarskilmálunum að heimilt væri að leggja jarðstrengi í stað loftlína.  Þá má nefna að í drögunum er ekkert minnst á jarðhitanýtingu sem er þó nýttur innan svæðisins í dag.

Friðlýsingarskilmálar leyfi orkunýtingu og orkuflutning

Í bókunum sveitarfélaganna, Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar kemur skýrt fram að vilji þeirra er að hægt verði að nýta orkuvinnslumöguleika innan þess svæðis sem áformað er að þjóðgarðurinn nái til, auk þess sem hægt verði að tvöfalda flutningslínur raforku.  Það hlýtur að skiljast þannig að friðlýsingarskilmálarnir þurfi beinlínis að heimila orkunýtingu og tvöföldun flutningskerfisins innan svæðisins, sem lúti þó að sjálfsögðu þeim lögum og reglum sem almennt gilda um uppbyggingu mannvirkja til orkunýtingar og orkuflutnings.

Orkubú Vestfjarða vonast til þess að þessi grein ásamt bréfum til sveitarfélaga megi verða til þess að opna umræðuna um friðlýsingarskilmálana, sem óbreyttir munu beinlínis vinna gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda varðandi orkuflutning og afhendingaröryggi raforku og nýlegum yfirlýsingum sveitarfélaga varðandi þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ísafirði 12. maí 2021
Elías Jónatansson,
Orkubússtjóri

DEILA