Sif Huld Albertsdóttir starfsmaður Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðra hefur sakað Margréti Geirsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs um einelti gagnvart sér. Óháður aðili var fenginn til að fara yfir umkvörtunarefnið og hefur skilað skýrslu. Sif Huld vildi ekki greina frá niðurstöðum skýrslunnar en sagði að hún væri að meta málið með lögfræðingi sínum, það væri í vinnslu og myndi skýrast á næstu dögum.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri segir í svari sínu við fyrirspurn Bæjarins besta að ekki séu veittar upplýsingar um mál sem varða einstaka starfsmenn. „Þ.a.l. get ég hvorki staðfest eða hafnað því að fótur sé fyrir sögusögnum þegar kemur að málum sem mögulega varða einstaka starfsmenn.“
Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri segir að hún hafi engu við svar bæjarstjóra að bæta.
Samkvæmt heimildum Bæjarins besta hefur sviðsstjóri veðferðarsviðs verið heima síðan málið kom upp.
Málið er á margan hátt viðkvæmt. Það er starfsmannamál sem eðli máls samkvæmt getur verið erfitt úrlausnar. En það hefur einnig þær hliðar að Sif Huld er bæjarfulltrúi meirihlutaflokks. Yfirmaður sviðsstjóra velferðarsviðs er bæjarstjóri. Bæjarstjórinn er ráðinn til starfa af bæjarfulltrúum meirihlutans. Einn þeirra er eiginmaður sviðsstjórans. Hann er svo starfsmaður bæjarins og þar með undirmaður bæjarstjórans.