Fjórði þáttur Djúpvarpsins, hlaðvarps í Djúpinu, miðstöðvar í Bolungavík er kominn út. Í honum ræðir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri við Teit Björn Einarsson, varaþingmann Sjálfstæðisflokksins. Teitur Björn segir að mikil sóknarfæri séu fyrir Vestfirðinga næstu árin í fiskeldinu. Framundan geti verið uppgangstími í líkingu við skuttogaravæðinguna á 8. og 9. áratug síðustu aldar.
Teitur Björn segir mikilvægt að stjórnvöld skilji þýðingu þess að Vestfirðingar fái að nýta sjávarauðlindina. En því miður hafi stjórnvöld, bæði ráðherra og stofnanir tafið fyrir uppbyggingu fiskeldisins og að hans mati er það álitamál hvort stofnanir hafi alltfa farið að lögum við afgreiðslu mála og vísar Teitur Björn þar til þess að tímafrestir hafi ekki verið virtir og að stofnanir hafi tekið sér vald umfram lagaheimildir sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Þá gagnrýnir hann Kristján Þór Júliusson, sjávarútvegsráðherra fyrir það að hafa ekki látið vinna burðarþolsmat fyrir Jökulfirði því án þess sé ekki vísindalegur grundvöllur fyrir ákvörðun með eða á móti fiskeldi í Jökulfjörðunum. Teitur Björn Einarsson bendir á að þess í stað sé spurningunni án svars um burðarþolsmat um Jökulfirði vísað til svæðisráðs sem heyrir undir Umhverfisráðherra.