Fyrrum nemandi minn, nú fjögurra barna móðir í Bolungarvík, fór á dögunum til kvensjúkdómalæknis. Hún lýsti einkennum fyrir lækninum og læknirinn tók leghálssýni, sagði henni síðan að samkvæmt lýsingunum gæti verið um frumuvöxt eða krabbamein að ræða en nú tæki við 8-10 vikna bið eftir niðurstöðum greiningar á sýninu.
Rúmir tveir mánuðir í óvissu er sem sagt það sem konum er boðið upp á í heilbrigðiskerfinu á Íslandi, nú á árinu 2021. Rúmir tveir mánuðir í bið eftir niðurstöðum er það sem læknum á Íslandi er boðið upp á til að þeir geti lokið sinni vinnu og gefið sjúklingum sínum svör eða skipulagt næstu skref í meðferð, ef á þarf að halda.
Í upphafi þessa árs var fyrirkomulagi skimunar á leghálskrabbameini breytt á þann veg að nú sjá heilsugæslustöðvar um sýnatöku og sýnin eru svo send úr landi til greiningar, til danskrar rannsóknarstofu í Hvidovre. Það má sýna þeirri ákvörðun skilning að færa sýnatökuna inn á heilsugæslustöðvarnar, því með henni færist sú þjónusta nær konunum sjálfum og verkefnið getur styrkt starfsemi heilsugæslunnar. Ákvörðun um að senda sýnin úr landi var hins vegar tekin í trássi við ábendingar fjölmargra sérfræðinga um að þessa vinnu væri vel hægt að vinna hér á landi. Meðal annars hefur félag íslenskra rannsóknarlækna lýst furðu sinni yfir þessari ákvörðun og bent á að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hafi yfir að ráða bæði tækjum og sérfræðiþekkingu til að sinna þessum greiningum. Nú er hins vegar hætta á því að sú ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að færa rannsóknirnar úr landi muni valda því að áralöng og yfirgripsmikil þekking sem byggst hefur upp hér á landi muni glatast.
Ekki verður annað séð en að kostnaður hafi verið látinn ráða för við þá ákvarðanatöku heilbrigðisráðherra að sniðganga íslenskt rannsóknarfólk og þann tækjakost sem Landspítalinn hefur yfir að ráða. Það hefði vissulega þurft að kosta einhverju til svo að hægt yrði að flytja þessa greiningarvinnu inn á Landspítalann en þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir liggur kostnaðargreiningin ekki enn fyrir og því óljóst hvort um sparnað sé að ræða. Heilbrigðisráðherra rökstuddi ákvörðunina í byrjun árs með því að hún snerist um öryggi kvenna, en nú 4 mánuðum síðar er ljóst að öryggi kvenna er stefnt í hættu. Smám saman hefur komið í ljós hversu illa ígrunduð þessi ákvörðun virðist hafa verið. Svör berast seint og illa frá dönsku rannsóknarstofunni og alls konar flækjustig virðist vera á leiðinni. Meðal annars þarf að færa öll sýni yfir á danskar kennitölur þegar þau berast þangað og þegar niðurstöður berast þarf að færa þær aftur yfir á íslenskar kennitölur. Augljóst er að flækjustig af þessu tagi tefur ferlið og getur aukið líkur á mistökum. Einnig hefur talsambandið milli lækna og rannsóknaraðila rofnað, því lítil tengsl eru við dönsku rannsóknarstofuna. Slíkt talsamband getur verið algerlega nauðsynlegt læknum við ákvarðanatöku um frekari meðferð.
Augljóst er að öryggi kvenna hefur ekki verið haft í fyrirrúmi við þessar aðgerðir og eftir standa þúsundir kvenna á Íslandi í fullkominni óvissu um eigið öryggi og heilsu. Getum við sætt okkur við að þannig sé staðið að málum í íslensku heilbrigðiskerfi á árinu 2021?
Valgarður Lyngdal Jónsson
Höfundur skipar 1. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi