Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um afstöðu sín til fiskeldis í Jökulfjörðum að hann myndi vilja halda Jökulfjörðum ósnertum og að nóg burðarþolsmat sé í öðrum fjörðum á Vestfjörðum. Kristján Þór vill afnema nýju línuna í Djúpinu sem Hafrannsóknarstofnun setti í fyrra og minnkar mögulegt laxeldi úr 30 þúsund tonnum í 12 þúsund tonn.
„Ég tel að við ættum að halda okkur við þá bókun bæjarráðs að óheimilt verði að stunda fiskeldi í Jökulfjörðum, a.m.k. þar til nýtingaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp og Jökulfirði liggi fyrir. Einnig er mikilvægt að klára strandsvæðaskipulag og fá íbúa og alla hagsmunaaðila að borðinu. Mikilvægt er að fá skoðun allra aðila að málinu. Bæjarfulltrúar verða að taka mark á vinnu við strandsvæðaskipulag þar sem íbúar og hagsmunaaðilar geta komið sínum skoðunum á framfæri. Mín persónulega skoðun er sú að ég hefði frekar viljað sjá meiri uppbyggingu í Ísafjarðardjúpi og hin illa rökstudda verndarlína sem dregin var um mitt Djúp verði afnumin og eldi byggt upp innar í Djúpinu í samræmi við burðarþol Ísafjarðardjúps og áhættumatið hækkað. Jökulfjörðum myndi ég vilja halda ósnertum og tel það auka fjölbreytileika okkar og styrkja okkur sem heild að geta unnið bæði með fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og verið með ósnert friðland í næsta herbergi. Við megum ekki gleyma að burðarþolsmat í fjörðum Vestfjarða er 82.500 tonn sem er nálægt allri framleiðslu í Færeyjum. Við verðum því ekki á flæði skeri stödd þó að ekki verði fiskeldi í Jökulfjörðum. Mikilvægara er að sveitarstjórnarfólk vinni að því að tryggja sem flest störf og sem mesta þjónustu og verðmætasköpun verði hér vestra í kringum þegar áætluð áform. Þar verðum við sveitarstjórnafólkið að standa okkar plikt.“