Strandabyggð: uppsögn sveitarstjóra staðfest í gær

Jón Gísli Jónsson tekur við tímabundið sem framkvæmdastjóri Strandabyggðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar kom saman í gær og staðfesti á fundi sínum uppsögn sveitarstjóra.

Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að samstarfsörugðleikar hafi farið vaxandi og að samskipti milli sveitarstjóra og kjörinna fulltrúa hafi oft verið erfið og þung. Þá hafnar sveitarstjórnin ásökunum fyrrverandi sveitarstjóra um brot á lögum, samþykktum og siðareglum.

Fyrst um sinn mun oddviti gegna starfi framkvæmdastjóra.

„Fyrrum sveitarstjóra Strandabyggðar, Þorgeiri Pálssyni, var sagt upp störfum þann 20. apríl sl. Þessi ákvörðun var ekki léttvæg en var tekin að vel ígrunduðu máli og átti sér nokkurn aðdraganda. Samstarfsörðugleikar höfðu farið vaxandi eftir því sem leið á kjörtímabilið og samskipti milli sveitarstjóra og kjörinna fulltrúa voru oft erfið og þung. Slíkar aðstæður eru krefjandi fyrir alla aðila og leiða oft í ljós að þeir eiga ekki lengur samleið. Þegar sýn og stefna sveitarstjórnar og sveitarstjóra fara ekki saman fer dýrmætur tími til spillis. Þessir þættir leiddu til þess að sveitarstjórn Strandabyggðar var sammála um að segja sveitarstjóra upp störfum.

Sveitarstjórn telur að löglega hafi verið staðið að uppsögninni og segir að farið hafi verið eftir ákvæðum ráðningarsamnings. Þar er kveðið á um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest sem sveitarfélagið greiðir, hvort sem um uppsögn af hálfu sveitarfélags eða sveitarstjóra er að ræða.

Sveitarstjórn hafnar því alfarið að hafa brotið sveitarstjórnarlög, samþykktir og siðareglur Strandabyggðar eins og ýjað er að í yfirlýsingu frá fyrrum sveitarstjóra.

Oddviti Strandabyggðar tekur tímabundið við sem framkvæmdastjóri í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn Strandabyggðar mun í framhaldinu skipta með sér verkum og vinna að þeim í samvinnu við skrifstofu sveitarfélagsins og með öðru starfsfólki Strandabyggðar til að minnsta kosti þriggja mánaða.

Sveitarstjórn hefur einnig samið við ráðgjafafyrirtækið Ráðrík um að vera til staðar og taka að sér afmörkuð verkefni fyrir sveitarfélagið gerist þess þörf.“

DEILA