Patreksfjörður: hjúkrunarrými endurbætt

 Samningur um nýbyggingu og endurbætur á hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði er á lokastigi og bíður staðfestingar bæjarstjórnar Vesturbyggðar. Í svari Heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að skrifað verði undir á næstu vikum.

Samkvæmt samningnum munu heilbrigðisráðuneytið og Vesturbyggð standa saman að byggingu og endurbótum á hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Í niðurstöðu frumathugunnar Framkvæmdasýslu ríkisins frá mars 2021 er lagt til að byggja við stofnunina og gera endurbætur á hluta hennar. Í dag er heimilið með 11 hjúkrunarrýmum, þar eru fjögur einbýli, tvö tvíbýli og eitt þríbýli. Með stækkuninni verða 11 einbýli sem leysa munu öll tví- og þríbýli af hólmi.

Heilbirgðisráðuneytið vildi ekki að svo stöddu upplýsa hver kostnaðurinn er áætlaður en Vesturbyggð mun greiða 15% af honum.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða lýsti yfir ánægju með framvindu mála.

DEILA