Í dag eru 50 ár frá heimkomu fyrstu handritanna

Í dag eru liðin 50 ár frá heimkomu fyrstu handritanna frá Danmörku, Flateyjarbókar og Konungsbókar eddukvæða.

Sá viðburður markaði tímamót í Íslandssögunni og var táknrænn lokapunktur handritamálsins, en afhending handritanna fór fram í áföngum næstu 26 árin á eftir. Skil Dana á menningarverðmætum hingað til lands er einstakur viðburður í alþjóðlegu samhengi.

Í dag munu Guðni Th. Jóhannesson forseti og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra leggja hornstein að Húsi íslenskunnar sem nú rís við Arngrímsgötu í Reykjavík. Fastasýning í Húsi íslenskunnar verður mikilvægur hluti framtíðarmiðlunar menningararfsins og þar munu handritin öðlast verðugan sess.

Byggingin mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar verða sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir sem og skrifstofur og bókasafn.

DEILA