Mikil ferðahelgi er í uppsiglingu, ekki síst á norðanverðum Vestfjörðum en að vanda er von á fjölda fólks til Ísafjarðar á Skíðaviku og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Lögreglan á Vestfjörðum beinir því til ferðalanga að huga vel að veðurspá áður lagt ef af stað í langferð milli landshluta og bendir á þjónustusíma og vefsíðu Vegagerðarinnar varðandi færð á vegum. Vegfarendur eru hvattir til að haga akstri eftir aðstæðum og hafa í huga að enn getur verið hálka eða hálkublettir á vegum, einkum á fjallvegum. Þá þarf ekki að taka fram að ökumenn keyri ekki nema allsgáðir og óþreyttir.
Lögreglan minnir foreldra á að útivistarreglurnar fyrir börn gilda alltaf, hvort heldur á hátíðisdögum eða öðrum dögum. Sama á við veru á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður, ef börn eru þar eiga foreldrar að vera með þeim og njóta saman.
Lögreglan mun sem fyrr auka eftirlit sitt um páskana og vera með aukinn mannskap, bæði á vegum í umdæminu sem og þar sem fjölmenni verður. Markmið lögreglunnar er að þessir dagar verði slysalausir og að íbúar og gestir sem til Vestfjarða koma eigi góðar og óhappalausar stundir.