Dupont eignast meirihluta í Þörungaverksmiðjunni

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum.

Bandaríska stórfyrirtækið DuPont hefur keypt heilsuvöruframleiðslu bandaríska fyrirtækisins FMC Corporation og þar á meðal meirihlutann í Þörungaverksmiðjunni hf. á Reykhólum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Magnús Helgason, sem situr í stjórn þörungaverksmiðjunnar, segir í samtali við blaðamann  Morgunblaðsins að ekki sé reiknað með að þessi viðskipti hafi áhrif á starfsemi verksmiðjunnar. Viðskiptin tengjast samruna fyrirtækjanna DuPont og Dow Chemicals, sem tilkynnt var um árið 2015 og á koma til framkvæmda á síðari hluta þessa árs. DuPont hefur nú selt hluta af efnaframleiðslu sinni til FMC og keypt á móti heilsuvöruframleiðsluna

FMC Corporation er skráð fyrir 71,6% hlutafjár í Þörungaverksmiðjunni hf., Byggðastofnun á 27,7% hlut og aðrir hluthafar eru um 70.

Þörungaverksmiðjan framleiðir mjöl úr klóþangi og hrossaþara úr Breiðafirði. Fram kemur á heimasíðu verksmiðjunnar, að meira en 95% af framleiðslunni sé til útflutnings og helstu markaðir séu Skotland, Bandaríkin, Bretland, Noregur, Holland, Þýskaland, Frakkland, Japan og Taívan. Mjölið hafi mjög góða bindieiginleika vegna mikils innihalds svokallaðra gúmmí- efna í mjölinu. Það sé framleitt að miklu leyti fyrir fyrirtæki sem áframvinni efnið til að einangra gúmmíefnin til áframvinnslu í ýmiskonar iðnaði, svo sem matvæla-, snyrtivöru-, lyfja- og textiliðnaði. Öll framleiðsla Þörungaverksmiðjunnar hefur lífræna vottun og grundvallast meðal annars á sjálfbærri nýtingu á þangi og þara úr Breiðafirði.

Dupont er eitt stærsta efnaframleiðslufyrirtæki heims. Það var stofnað árið 1802 í Delaware í Bandaríkjunum til að framleiða púður í byssuskot.

DEILA