Bútasaumur í tuttugu ár

Hluti sýningargripa á afmælissýningunni.

Bútasaumsklúbburinn Pjötlurnar fagnar 20 ára afmæli á árinu, en klúbburinn var stofnaður 28. maí 1997. Í tilefni afmælisins heldur klúbburinn sýningu í Safnahúsinu á Ísafirði. Á sýningunni verða óvissuverkefni sem klúbbfélagar hafa gert og verkefni sem hafa verið gerð á Suðureyri, Þingeyri, Núpi og í Reykjanesi á síðustu 20 árum. Sýningin er á göngum og stigagangi safnsins.

Félagssvæði klúbbsins er norðanverðir Vestfirðir og eru félagkonur frá Bolungarvík, Ísafirði, Suðureyri, Súðavík, Flateyri og Þingeyri. Klúbbfélagar hittast á saumafundum fyrsta laugardag hvers mánaðar frá september til apríl. Fyrstu helgi í maí og október eru saumabúðir í Reykjanesi sem eru öllum opnar og þangað koma konur annars staðar af landinu til að sauma. Félagskonur hafa flestar verið um 70 en hefur fækkað núna allra síðustu ár og eru félagskonur í dag 48. Félagar eru á öllum aldri og kynslóðabil er óþekkt.

Klúbburinn tók þátt í handverkssýningu sem haldin var í Menntaskólanum í apríl 2001, hann var með sýningu á Hótel Ísafirði í mars 2003, í Verkalýðsfélagshúsinu í maí 2005 og Jólasýning í Safnahúsinu um mánaðamótin nóvember, desember 2010.

Afmælissýningin í Safnahúsinu stendur yfir frá 10.-18. apríl á opnunartíma safnsins.

DEILA