Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að um áramótin hafi nýtt reiknilíkan fyrir fjármögnun heilsugæslu á landsbyggðinni tekið gildi. Greiðslur yfirvalda vegna rekstrar heilsugæsluselja voru um nokkurra missera skeið verulegri óvissu háðar segir Gylfi og því ekki nægjanlega skýrt að vilji yfirvalda stæði til þess að selið í Bolungavík yrði rekið áfram í bænum. „Þetta er nú orðið skýrara, og fjármunir fylgja rekstrinum.“
Húsnæði heilsugæslunnar að Höfðastíg 15 hefur verið selt og Gylfi segir að það sé enn á undirbúningsstigi hvar heilsugæsluselið verðisett niður og engin formleg ákvörðun hafi verið tekin. Hann hefur kynnt fyrir ráðuneyti heilbrigðismála ákveðnar hugmyndir og bíður viðbragða við þeim.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að bæjarráð Bolungavíkur hafi tekið vel í hugmyndir um að bjóða Heilbrigðisstofnuninni húsnæði í eigu bæjarins að Aðalstræti 22 til leigu. Um sé að ræða 46 fermetra húsnæði sem gæti rúmað biðstofu og aðstöðu fyrir lækni og hjúkrunarfræðing. Jón Páll segir húsnæðið hentugt fyrir íbúa hjúkrunarheimilins Bergs og eldri íbúa sem búa í íbúðum fyrir eldri borgara í húsinu. Þá sé það miðsvæðis í bænum og aðgengi gott.
Bæjarsjóður keypti húsnæði heilsugæslustöðvarinnar að Höfðastíg 15 og hyggst breyta því í íbúðarhúsnæði. Heilsugæslan í Bolungarvík hefur um áratuga skeið verið þar í sérsmíðuðu húsi. Þar var aðstaða fyrir heilsugæslulækni, hjúkrunarfræðing, tannlækni, apóteki auk íbúðar fyrir starfsmann.