Trékyllisheiðin er nýtt utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í fyrsta sinn laugardaginn 14. ágúst 2021.
Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur á Ströndum.
Leiðin yfir heiðina var greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga áður en vegur var lagður meðfram snjónum norðan Bjarnarfjarðar. Heiðarleiðin er mun styttri en bílvegurinn, en liggur víðast í um 400 m hæð og er afar hrjóstrug, gróðursnauð og illviðrasöm á vetrum. Heiðin verður því sjaldan fyrir valinu sem ferðaleið ef aðrar hlýlegri standa til boða. Jeppaslóði liggur yfir heiðina, en hann er mjög seinfarinn, nema helst þegar harðfenni er yfir.
Tvær hlaupaleiðir verða í boði, lengra hlaupið (47 km) hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík og styttra hlaupið (15,5 km) hefst í u.þ.b. 200 m hæð á þjóðveginum á Bjarnarfjarðarhálsi við norðanverðan Steingrímsfjörð, u.þ.b. 2 km ofan við bæinn Bassastaði.
Strandamaðurinn og hlauparinn Stefán Gíslason sem er i skipulagsteymi hlaupsins segir að lengri leiðin sé 47 km í frekar grýttu og hrjúfu landslagi. Þrátt fyrir að leiðin fylgi troðnum slóðum að mestu sé hún tæplega fyrir óvant fólk. Styttri leiðin er hins vegar aðeins rúmir 15 km með lítilli hækkun. „Hún ætti að geta hentað nánast hverjum sem er sem á annað borð treystir sér í þriggja tíma gönguferð á troðnum stígum. Það er jú alls engin skylda að hlaupa alla leið.“ segir Stefán.
Skráning í hlaupið er hafin á facebook.