Stútur við stýri

Aðfaranótt 22. desember var ökumaður á Hólmavík kærður vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður sem var á ferð um Hnífsdal í síðastliðna nótt var kærður fyrir að vera undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Höfð voru afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í vikunni vegna blárra pera í aðalljósum, en slíkt er bannað lögum samkvæmt og ökumanninum gert að skipta um perur strax. Tveir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Báðir voru þeir í akstri á Djúpvegi. Þá var ökumaður á Patreksfirði í vikunni kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar má nefna útkall að morgni 20. desember er lögregla og slökkvilið kallað að íbúð í fjölbýlishúsi á Patreksfirði vegna elds sem hafði brotist þar út. Slökkvilið var fljótt að slökkva eldinn, sem var í einu rými íbúðarinnar. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar vegna gruns um reykeitrun. Tjón var óverulegt og íbúinn fljótur að jafna sig. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

annska@bb.is

DEILA