Fyrir ári síðan

Nú er ár frá því að allt fór á annan endann.

Lítið hafði borið á smitum á Vestfjörðum fram að þessu. Allan marsmánuð höfðu smit greinst á höfuðborgarsvæðinu og á einstökum stöðum úti á landi, til dæmis Vestmannaeyjum. Nokkrir Ísfirðinga sem verið höfðu í skíðaferð í Austurríki komu heim úr fríinu og fiskisagan um þá var fljót að breiðast út í misbrengluðum útgáfum. Margir voru enda hræddir við þessa ósýnilegu ógn sem veiran var.  

Veðrið var misvont, en veturinn hafði verði mjög snjóþungur með snjóflóðum. Snjógöng á vegum voru há og því þurfti ekki að hreyfa mikinn vind svo færð spilltist.

Aðgerðastjórn kom saman

Þann 31. mars hafði aðgerðastjórn komið saman eftir að Covid-19 smit hafði verið staðfest í Bolungarvík. Áhöfnin á Sirrý var í sóttkví. Töfin frá því að sýni voru tekin þar til niðurstaða barst var löng, stundum nokkrir dagar.

Grunur var um fleiri smit en óstaðfest. Það var hinsvegar ljóst að ef ekkert yrði gert héldi fólk áfram að smita hvert annað. Því var ákveðið eftir miklar bollaleggingar að fella niður kennslu á mið- og unglingastigi Grunnskólans í Bolungarvík frá 1. apríl.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar voru notuð orð eins og „úrvinnslusóttkví“ og „heimasóttkví“. Öll vorum við að reyna að læra hvað þessi orð þýddu og hvernig maður átti að haga sér. Fréttir voru misvísandi um hvort skortur væri á þessum frægu sýnatökupinnum eða ekki. Grímur voru enn taldar vera gagnslitlar.

Gul viðvörun

Og svo rann 1. apríl upp. Skólarnir í Bolungarvík lokaðir. Það snjóaði. Mjög margir komu í sýnatöku og fóru í sóttkví. Ófært var í flug og leigubíll var sendur með sýnin suður til greiningar. Íbúar hjúkrunarheimilisins Bergs voru settir í sóttkví. Starfsmenn meira og minna líka. Fólk af öðrum deildum þurfti að stíga inn í staðinn.

Allir áttu að vera búnir að æfa sig í að klæða í og úr hlífðarfatnaðnum, en auðvitað var beygur í mörgum að fara inn í svona aðstæður. En hlífðarbúnaðurinn var gagnvart veirunni. Hentugur hlífðarbúnaður gegn bæði veiru og veðri var ekki til.

Það snjóaði og blés. Viðvaranirnar voru gular og appelsínugular. Snjór á rúðunum. Tveir bílar keyrðu út af vegna veðurs á veginum úr Bolungarvíkurgöngum inn í bæinn. Læknir á vaktbílnum lenti í vindhviðu, snerist á veginum og slengdist utaní ljósastaur. Sjúkraliði á leið í sýnatöku keyrði útaf veginum. Rafmagnið fór af og varaaflstöðin í kjallaranum á Ísafirði hrökk í gang af gömlum vana. Ekki í fyrsta skipti þann veturinn og ekki það síðasta.

Um kvöldið hittist aðgerðastjórn aftur og ákvað að loka skólum á Ísafirði og Hnífsdal. Súðavíkurhlíðinni var lokað vegna snjóflóðahættu seinna um kvöldið.

Síðan ráku þau sig á víxl, hetjudáðirnar og áföllin. Tugum milljóna var safnað til að kaupa tæki og búnað. Blessunarlega áttu þessir atburðir sér fá systkin hér innanlands þó sambærilegar fréttir heyrist dag hvern utan úr heimi enn ári seinna.

Stofnunin og samfélagið sýndi í apríl 2020 samtakamátt sinn. Heilbrigðiskerfið vann saman eins og ein órofa heild.

Í dag er 1. apríl 2021. Margt hefur breyst á þessu ári en annað ekki. Ég veit allavega að ég er ekki sami maður og fyrir ári síðan. 

Gylfi Ólafsson

forstjóri Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

sýnataka
DEILA