Þrír samningar um stofnun áfangastaðastofa undirritaðir í mars

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur það sem af er marsmánuði undirritað þrjá samninga um stofnun áfangastaðastofa. Um er að ræða áfangastaðastofur á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi.

Með þessu eru áfangastaðastofur á landinu orðnar fimm, en áður hafa verið undirritaðir samningar um stofnun áfangastaðastofa á Reykjanesi og Suðurlandi.

Áfangastaðastofa er svæðisbundin þjónustueining á vegum opinberra aðila og einkaaðila sem hefur það meginhlutverk að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og tryggja að hún þróist í takt við vilja heimamanna þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.

Markmiðið með stofnun áfangastaðastofa er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi hennar á viðkomandi landsvæði. Áfangastaðastofa starfar í umboði sveitarfélaga viðkomandi landsvæðis og er samstarfsvettvangur viðkomandi sveitarfélaga, ríkis og ferðaþjónustunnar.

Eitt meginverkefni áfangastaðastofu er að leggja fram áfangastaðaáætlun fyrir svæðið og tryggja að hún sé í samræmi við aðra lögbundna áætlanagerð og aðal- og deiliskipulag. Auk þess mun áfangastaðastofan m.a. hafa aðkomu að þarfagreiningu rannsókna og mælinga á landsvísu, stuðla að vöruþróun og nýsköpun, leggja mat á fræðsluþörf og sinna svæðisbundinni markaðssetningu. Áfangastaðastofa getur verið stofnuð á grundvelli núverandi markaðsstofa. 

DEILA