Ákveðið hefur verið að endurvekja bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu. Óskað er eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks sem er reiðubúið að koma tímabundið til starfa með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa. Þeir sem voru skráðir í bakvarðasveitina og sjá sér enn fært að veita liðsinni eru beðnir um að skrá sig þar á ný.
Fyrirkomulag varðandi bakvarðasveitina er eins og áður. Opinberar heilbrigðisstofnanir sem óska eftir að ráða sér liðsauka úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar geta nálgast lista með upplýsingum um þá sem hafa skráð sig til þátttöku hjá heilbrigðisráðuneytinu.
Stofnanirnar munu sjálfar hafa beint samband við bakverði og verður ráðningarsambandið á milli viðkomandi stofnunar og þess/þeirra bakvarða sem ráða sig til starfa. Til að hægt sé að bæta stofnunum upp kostnaðinn sem hlýst af ráðningu bakvarða, skulu þær halda sérstaklega utan um þann kostnað sem hver ráðning hefur í för með sér.
Stofnanir sem um ræðir eru eftirfarandi: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri.