Fab Lab smiðjan Ísafirði tryggð næstu þrjú árin

Í síðustu viku var skrifað undir nýjan samning um Fab Lab smiðju við Menntaskólann á Ísafirði og rekstur smiðjunnar er því tryggður til næstu þriggja ára. Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir og Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir voru viðstaddar rafrænan viðburð þar sem skrifað var undir samninga í öllum smiðjum landsins. Einnig voru viðstaddir bæjarstjórar Bolungavíkur og Ísafjarðarbæjar og sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Í smiðjunni mættu fyrir hönd Menntaskólans á Ísafirði, Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari og Hildur Halldórsdóttir aðstoðarskólameistari og Sædís Jónatansdóttir fyrir hönd Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Framlag ráðuneytanna til stafrænna smiðja verður alls 84 milljónir kr. á árinu 2021, þ.e. 38 milljónir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og 46 milljónir kr. frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. 

Alls eru stafræktar átta Fab-Lab smiðjur á landinu. Flestar eru þær starfræktar í skólum og eru mikilvægur liður í að efla nýsköpunarhugsun á öllum skólastigum. Starfsemi þeirra miðar að því að þjónusta nemendur, frumkvöðla, fyrirtæki og almenning við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.  

Stafrænar Fab-Lab smiðjur eru nýsköpunarsmiðjur sem veita notendum tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Smiðjurnar gefa kost á skapandi námi og auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, frumkvöðla og almennings.

DEILA