Fyrir nokkrum árum heimsótti ég iðngarðinn Höchst sem er staðsettur rétt utan Frankfurtborg í Þýskalandi. Þar njóta mismunandi iðnfyrirtæki nálægðar við hvort annað þannig að hrat frá einum er hráefni fyrir þann næsta. Þetta er umhverfisvænt fyrirkomulag og er einn af stóru kostum iðngarða. Ein ný lífdísel-verksmiðja var langt komin í byggingu og sagði fulltrúi þess verkefnis að aðeins væru liðnir 11 mánuðir síðan þau höfðu samband við iðngarðinn um mögulega staðsetningu. Íslendingnum lá forvitni á að vita hvernig þetta væri hægt og vísaði í að mat á umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda tæki a.m.k. 2 ár í sínu heimalandi. Svarið liggur í því að iðngarðurinn var búin með frummat fyrir mismunandi framleiðsluferla og því þurfti aðeins staðfestingavinnu við þegar fyrirspurnin frá lífdísil-framleiðandanum kom.
Í Iðnaði sem byggir á nýjustu tækni felast þau atvinnutækifæri sem við viljum helst laða til landsins. En í því felst jafnframt að hann hefur minnstu biðlund gagnvart löngum leyfisveitingaferlum. Í nýlegri úttekt Aagot Vigdísar Óskarsdóttur lögfræðings kemur fram að ferlið við mat á umhverfisáhrifum er að jafnaði lengra á Íslandi en í nágrannalöndunum, sér í lagi vegna viðtækari kæruheimilda. Í annarri nýlegri skýrslu frá verkfræðistofunni VSÓ kemur fram að dæmi eru um að sama framkvæmd fari 17 sinnum í umsagnarferli og að hver stofnun fjalli 10 sinnum um málið!
Með bættri stjórnsýslu má laga þetta án þess að það komi niður á varúðarsjónarmiðum umhverfisverndar. Í NV-kjördæmi eru fjölmörg atvinnutækifæri í sjónmáli sem gætu tafist að óþörfu eða ekki orðið af ef ferli eru ekki skilvirk. Þetta getur átt við um iðnaðaruppbygginu á Grundartanga, fiskeldi, og orkuvinnslu. Við getum gert leyfisveitingaferla skilvirkari.
Höfundur hefur boðið sig fram í oddvitasæti Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.
Gunnar Tryggvason
Verkfræðingur.