Mannfjöldi 1. janúar 2021 var 368.792. Íbúum fjölgaði um 4.658 frá 1. janúar 2020 eða um 1,3%.
Alls voru 189.043 karlar og 179.749 konur búsettar á Íslandi í upphafi ársins og hafði körlum fjölgað um 1,1% árið 2020 en konum um 1,4%.
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 3.494 fleiri 1. janúar 2021 en fyrir ári. Það jafngildir 1,5% fjölgun íbúa á einu ári.
Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 1,8%, eða 555 á síðasta ári. Fólki fjölgaði á Suðurnesjum um 366 einstaklinga (1,3%), og um 78 (1,1%) á Norðurlandi vestra.
Minni hlutfallsleg fólksfjölgun var á Austurlandi (1,0%), Vesturlandi (0,3%) og Norðurlandi eystra (0,04%).
Hins vegar fækkaði á Vestfjörðum um 0,1% en hafa verður í huga að árið 2019 fjölgaði þar um 0,7%.