Keldusvínið er útbreitt í Evrópu og Asíu og verpir lítils háttar í Norður-Afríku. Það verpti hér á landi langt fram á tuttugustu öldina en dó út sem varpfugl í kringum 1970.
Keldusvín var algengast á Suðurlandi en verpti þó á láglendi í öllum landshlutum. Höfuðstöðvar þess voru í Safamýri og Landeyjum en það var einnig algengt í Meðallandi og Ölfusi.
Þrátt fyrir talsverða leit á síðustu áratugum 20. aldar hefur keldusvín ekki fundist hér í varpi og er er nú aðeins þekkt hér sem sjaldgæfur en árviss flækingsfugl.
Keldusvínið er eindreginn votlendisfugl og kann best við sig í fenjum og foræðum.
Á veturna héldu íslensku fuglarnir sig við heitar laugar, læki og kaldavermsl. Talið er að þeir hafi verið staðfuglar.
Keldusvínið gerir sér hreiður í hávöxnum gróðri og eggin eru óvenjumörg, yfirleitt 6-10. Um varptímann lætur hátt í fuglinum, hann hrín líkt og svín og er nafnið vafalaust dregið af sérkennilegri röddinni.
Varptíminn hér á landi hófst í lok maí og stóð fram í september enda urpu fuglarnir að öllum líkindum tvisvar á sumri. Keldusvín er alæta en fæðan er þó að mestu úr dýraríkinu, þ.e. skordýr, skeldýr og smáfiskar.
Af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands