Samfylking: Guðjón hættir

Guðjón Brjánsson, alþm hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til áframhaldandi setu á Alþingi fyrir næstu Alþingiskosningar sem verða síðar á árinu.

Í tilkynningu frá honum segir að hann hafi setið á Alþingi Íslendinga frá alþingiskosningunum 2016 fyrir Samfylkinguna – Jafnaðarmannaflokk Íslands í Norðvesturkjördæmi. „Á þeim tíma hef setið sem 1. varaforseti Alþingis og unnið í allsherjar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd ásamt því að hafa verið formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.

Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem haldið verður seinna í mars. Stjórnmálin eru búin að eiga hug minn allan undanfarin ár og ég hafði stefnt á að gefa kost á mér næstu fjögur ár en hugur minn fylgdi ekki lengur hjarta þegar kom að ákvarðanatöku. Mig langar að eyða meiri tíma með minni fjölskyldu og fylgjast með barnabörnunum dafna og þroskast sem ég hef ekki haft nægilegan tíma til að gera.

Ég er þakklátur fyrir þann heiður að hafa fengið að sitja á Alþingi fyrir hönd jafnaðarmanna og að hafa barist fyrir hagsmunum landsmanna allra á þingi. Ég þakka öllum mínum kjósendum í Norðvesturkjördæmi og samstarfsfélögum fyrir stuðninginn á liðnum árum.“

DEILA