Blæðingar í vegaklæðingu

Á morgunfundi sem Vegagerðin stóð fyrir í gær var umfjöllunarefnið blæðingar sem geta orðið í vegklæðingu og malbiki.

Á fundinum var rætt um mis­munandi tegundir blæðinga, ástæður þeirra og viðbrögð Vegagerðarinnar þegar þær koma upp. Flutningageirinn kom sjónarmiðum sínum varðandi vegblæðingar á framfæri á fundinum.

Þetta vandamál hefur öðru hverju á síðustu árum verið að koma upp en náði hámæli undir lok síðasta árs vegna tjörublæðinga á þjóðveginum norður til Akureyrar. Vegklæðning safnaðist þá saman í hjólskálum bílanna og við það brotnuðu stuðarar bílanna. Á þriðja hundrað bifreiða urðu fyrir lakkskemmdum. Heildartjónið er talið nema um 30 milljónum króna sem Vegagerðin mun þurfa að greiða.

Á fundinum kom fram að blæðingar að sumarlagi verða helst á heitum sólríkum dögum. Miklar bæðingar geta valdið varanlegum skemmdum á klæðingu. Dæmi um slíkt er ekki bara að koma upp hér á landi en á fundinum var bent á að slík vandamál er þekkt víða um heim eins og á Nýja Sjálandi, Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Blæðingar aftur á móti að vetrarlagi virðast koma upp um lítil augu í klæðingunni. Dekk þungra bíla pumpa vatni ofan í klæðinguna. Blæðingar geta átt sér stað í öllum gerðum klæðinga. Fram kom einnig eins og dæmin hafa sannað að miklar blæðingar geta valdið varanlegum skemmdum á ökutækjum.

Vetrarblæðingar hafa lengi verið til vandræða og tilgáta um orsök eru endurteknar breytingar á hita um frostmark og álag vegna umferðar. Bent var á að vetrarblæðingar séu sjaldgæfar en alvarlegt ástand hefði skapast í desember sl. og sambærilegt tilfelli hefði komið upp 2013.

Á fundinum kom fram að bæðingar geta orðið vegna mistaka í framleiðslu og eða útlagningu. Of mikið bik er í blönduninni eða of mikil þjöppun á verkstað sem getur skapað mikla hættu vegna hálku þegar yfirborðið er blautt. Unnið er að endurskoðun á öllu verklagi við framkvæmdina til að koma í veg fyrir að slíkt ástand skapist. Allir nýlagnakaflar verða viðnámsmældir áður en umferð verður hleypt á þá. Umferð verði ekki hleypt á kaflann ef viðnámsskilyrði eru ekki uppfyllt.

Verið er að leggja lokahönd á að endurskoða viðbragsáætlun vegna blæðinga í klæðingum að vetri.

DEILA