Skólastjórar Vestfjörðum: óásættanlegt að prófakerfi bregðist. Vilja ekki samræmd próf í ár.

Á fundi Skólastjórafélags Vestfjarða, sem haldinn var í gær, var rætt um vandkvæðin sem upp komu með framkvæmd á samræmdu prófi á grunnskólastigi.

Skólastjórnendur taka undir ályktun skólastjóra í Kópavogi þess efnis að algerlega sé óásættanlegt að leggja fyrir samræmd próf í ófullnægjandi prófakerfi og telja þeir réttast að fella þau niður þetta árið.

Það geti skapað óvissu að fresta prófum og valdið kvíða hjá nemendum auk þess sem það hefur áhrif á annað skipulag skólastarfsins.

Skólastjórnendur á Vestfjörðum hvetja menntayfirvöld til að endurskoða fyrirlögn samræmdra prófa og taka tilgang þeirra og markmið til gagngerrar skoðunar. 

Prófum aflýst

Seint í gærkvöldi barst fréttatilkynning frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti að hún hefði ákveðið að aflýsa hefðbundnum samræmdum prófum í ensku og stærðfræði, sem ráðgert var að leggja rafrænt fyrir nemendur í 9. bekk í næstu viku. „Þessi ákvörðun byggir fyrst og fremst á hagsmunum nemenda og sjónarmiðum skólasamfélagsins“ segir í tilkynningunni.

„Annmarkar voru á rafrænni fyrirlögn prófs í íslensku hinn 8. mars og var prófum í ensku og stærðfræði þá frestað um nokkra daga. Að vel athuguðu máli telur Menntamálastofnun ekki öruggt að rafræn fyrirlögn prófanna muni ganga snurðulaust fyrir sig, enda hafi þjónustuaðili prófakerfisins ekki brugðist við aðstæðum með fullnægjandi hætti.“

Nemendum verður hins vegar gefið val um að taka könnunarpróf í viðkomandi greinum á tímabilinu 17. mars – 30. apríl nk. Menntamálastofnun ber að tryggja þá framkvæmd. Skipulag fyrirlagnarinnar skal undirbúin í samráði við skólasamfélagið og miðast við lágmarksröskun á skólastarfi.

DEILA