Jarðsett heimafyrir

Á ferðum sínum hafa margir eflaust séð lítil afgirt svæði – litla kirkjugarða – þar sem ekki eru kirkjustaðir. Oft eru þessi svæði vel afgirt með steyptum veggjum eða járngirðingum og jafnvel vel gróin trjám. Þetta eru svokallaðir heimagrafreitir. Líklega telja margir þá vera fornt fyrirbæri en svo er ekki. Fyrsti heimagrafreiturinn á Íslandi var tekin í notkun árið 1878 að Fiskilæk í Leirár- og Melasveit á Vesturlandi. Meðflygjandi mynd eftir Árna Böðvarsson ljósmyndara sýnir þann reit í byrjun síðustu aldar, þá hafði hann verið í notkun í um þrjá áratugi. Þessi tiltekni heimagrafreitur sést enn vel frá þjóðvegi 1 þegar ekið er framhjá bænum. Einhverjir gætu þekkt staðinn fyrir að þar er hraðamyndavél, svo kannski eru flestir að fylgjast með hraðamælinum þar en ekki að líta til grafreitarins. En hái minningarsteinninn blasir við frá veginum. Hann er yfir Þórði Sigurðssyni og Sigríði Runólfsdóttur foreldrum Matthíasar Þórðarsonar, fyrrum þjóðminjavarðar. Það var Þórður sem gekkst fyrir því að koma upp heimagrafreit á Fiskilæk.

Væntanlega hefur hvatinn fyrir stofnun heimagrafreita víða verið sá að fólk vildi hvíla á jörðinni sinni og vera áfram heima. Árið 1885 sótti Jón Bergsson í Brokey á Breiðafirði um að fá að gera heimagrafreit á eyjunni og þar kemur þetta viðhorf skýrt fram. Í bréfi sínu segir hann að „löng dvöl á þessum stað hefur gjört mjer hann svo kæran að jeg vil hvorki lífs nje liðinn hjeðan fara en óska innilega, að bein mín mættu hvílast hjer í friði“.

Frumbyggjar þessa lands á söguöld voru jarðsettir í túnjaðrinum heima, uppi á hólum, við haf eða vatn, á fjöllum og víðar. Eftir að kristni varð almennari í landinu tóku að myndast skipulagðir kirkjugarðar við kirkjur landsins og varð það venjan að fólk var jarðsett í slíkum görðum. Á síðari hluta 19. aldar virðist sem að aukið frjálslyndi í trúmálum hafi gert Íslendingum kleift að auka fjölbreytni við jarðsetningu látinna og eru einkagrafreitir engan veginn sér-íslenskt fyrirbæri, því þeir þekkjast vel í nágrannalöndum okkar. Árið 1963 var tekið fyrir stofnun nýrra heimagrafreita á Íslandi, en þá voru þeir orðnir 158 víða um land. En allt til dagsins í dag eru gamlir heimagrafreitir nýttir.

Kristín Halla Baldvinsdóttir

Af vefsíðu Þjóðminjasafns Íslands

DEILA