Vesturbyggð: vill Dynjandisheiði opna um helgar

Frá framkvæmdum við nýjan veg um Helluskrað á Dynjandisheiði. Mynd: Björn Davíðsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í gær um vetrarþjónustu á Dynjandisheiði.

Bæjarráðið beinir því til Vegagerðarinnar að leitað verði allra leiða til að auka vetrarþjónustu á Dynjandisheiði þannig að heiðin sé einnig þjónustuð yfir helgar.

Í bókun segir að sú þjónusta sem veitt er á Dynjandisheiði nýtist eingöngu atvinnulífi á Vestfjörðum og „hentar þjónustutími vetrarþjónustunnar illa fyrir íbúa sem leggja vilja leið sína á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða með tilkomu Dýrafjarðaganga.“

Einnig leggur bæjarráð áherslu á að leitað verði leiða til að halda Bíldudalsvegi opnum ofan af Dynjandisheiði og niður í Arnarfjörð. Með aukinni vetrarþjónustu væri unnt að draga úr álagi á Bíldudalsveg yfir Hálfdán og Mikladal segir að lokum í bókun bæjarráðs.

DEILA