Bæjartún íbúðafélag hses hefur sótt um stofnframlög fyrir 10 íbúðum í Ísafjarðarbæ sem fyrirtækið hyggst byggja. Segir í umsókninni að einkum sé horft til þess að byggja við Tungubraut á Ísafirði og við Drafnargötu eða Brimnesveg á Flateyri.
Í minnisblaði sviðsstjóra sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs um umsóknina kemur fram að áætlaður heildarbyggingarkostnaður sé 307.667.211 kr. Þar af yrði hlutur Ísafjarðarbæjar 36.920.065 kr.-, sem 12% styrkframlag. Ríkið myndi leggja fram 18% af byggingarkostnaði til viðbótar framlagi sveitarfélagsins.
Áætlað er að kostnaður sveitafélagsins skiptist á eftirfarandi hátt, þ.e. að opinber gjöld vegna verkefnis séu 22,5 miljónir þ.e. byggingarleyfis og gatnagerðargjöld, og beint framlag yrði 14,4 m. kr. sem greiðist við upphaf og lok verkefnis.
Ekki var tekin afstaða til erindisins en bæjarstjóra falið að vinna málið áfram.
Bæjartún hefur fengið lóðir í Bolungavík fyrir tveimur fimm íbúða húsum, samtals tíu íbúðir. Erindi þess um stofnframlög fyrir þær íbúðir var synjað af bæjarráði Bolungavíkur í síðustu viku og segir í bókuninni að ekki séu forsendur til þess að verða við erindinu.