Aldrei fór ég suður gerði á dögunum samning við prentsmiðjuna Odda um notkun umbúða sem eingöngu eru úr náttúrulegum hráefnum og flokkast því einfaldlega með öðrum lífrænum úrgangi. Umbúðirnar sem kallast Enviropack eru framleiddar úr sterkju sem fellur til við framleiðslu á sykri og maís og eru að fullu niðurbrjótanlegar og vistvænar.
Hátíðarhaldarar munu því bjóða uppá vistvænar umbúðir fyrir allar þær veitingar sem boðið verður uppá á hátíðarsvæðinu og flokkast því umbúðirnar með öðru lífrænu sorpi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá rokkstjórann Kristján Frey handsala samstarfið við fulltrúa Odda, strandamanninn Karl F. Thorarensen.
Aðstandendur Aldrei fór ég suður eru verulega glaðir með þetta samstarf og stoltir af því að taka nokkur græn skref, t.a.m. í kjölfar hins góða framtaks Plastpokalausra Vestfjarða sem kynnt var í fyrra.
Við þetta má bæta að veitingaaðstaða á hátíðarsvæðinu mun verða á nýjum stað, inni í húsi við hlið tónleikaskemmunnar og vonast því Aldrei fór ég suður hópurinn að hátíðargestir kunni vel að meta stórbætta aðstöðu og styðji vel við bakið á hátíðinni með kaupum á veitingum og varningi