Í bókun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá síðasta fimmtudag um forgangsröðun jarðganga á Vestfjörðum segir að göng á milli Skutulsfjarðar og Álfafjarðar séu nú þegar á samgönguáætlun og því skynsamlegt að leggja áherslu á að klára það verkefni fyrst og í framhaldinu kæmi þá næstu framkvæmdir.
Í frekari rökstuðningi fyrir þessari niðurstöðu segir í bókuninni:
„Gerð ganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar er afar brýnt verkefni út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni. Vegagerðin og Snjóflóðasetur Veðurstofunnar fylgjast vel með öllu hættumerkjum og hafa
gefið út viðvaranir og lokað hlíðinni ef svo ber undir. Árið 2018 féllu 61 flóð niður á veg samkvæmt talningu Vegagerðarinnar en bent skal á að fjölmargar viðvaranir og lokanir eru gefnar út á hverjum vetri til að hindra slys á fólki. Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði.
Samkvæmt vinnusóknarkönnun sem Byggðastofnun lét gera árið 2017 sækja tæp 30% vinnandi fólks í Súðavík vinnu til Ísafjarðar. Þónokkur fyrirtæki eru með starfsemi í Súðavík og á öðrum þéttbýliskjörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðisþjónustu, til Ísafjarðar.“
Hálfdán og Klettháls næst
Bæjarstjórnin ályktar að næst ætti að koma jarðgöng í gegnum Hálfdán og Klettháls. Hálfdán sem hættulegur og erfiður vetrarvegur milli byggðarlaga á sama atvinnu- og þjónustusvæði og Klettháls vegna flutninga á vetrum landleiðina í átt að vestur- og norðurlandi og að höfuðborgarsvæðinu.
Ekki lengur unað við ástandið
„Vestfirðir hafa setið eftir hvað varðar framkvæmdir í vegamálum á undanförnum áratugum og alveg ljóst að landshlutinn rekur lestina þegar litið er til vegaframkvæmda á landinu öllu. Við þetta verður ekki lengur unað og mikilvægt að áfram verði sérstök áhersla á Vestfirði í samgönguáætlun og að ekki verði staðar numið þegar þeim framkvæmdum sem nú eru í ferli er lokið. Mikilvægt er mæta fyrirsjáanlegum vexti í atvinnulífinu á svæðinu s.s. fiskeldi og ferðaþjónustu og tryggja að hægt sé að koma fólki á milli byggðarlaga, afurðum og aðföngum til og frá svæðinu og ferðamönnum um svæðið allt árið. Í því ljósi er mikilvægt að horft verði til úrbóta á Vestfjarðarleiðinni. Jafnframt er ljóst að ein helsta forsenda aukinnar samvinnu og sameiningar sveitarfélaga á svæðinu er að samgöngur milli staða verði bættar.“