„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér á lista Framsóknarflokksinns í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum. Stefni á 3ja sætið,“ skrifar Tryggvi Gunnarsson Flateyingur í tilkynningu. Meðfylgjandi greinargerð fylgir tilkynningu hans:
„Vegna póstkosningar Framsóknarmanna í NV-kjördæmi 16. febrúar til 13. mars 2021. Ég, Tryggvi Gunnarsson, kt. 090563-5059, til heimilis að Firði 4, 710 Seyðisfjörður, fæddist á Fellsströnd í Dalasýslu og flutti þaðan fjögurra ára gamall í Flatey á Breiðafirði og ólst þar upp. Móðir mín, Svanhildur Jónsdóttir, býr þar í dag ásamt manni sínum Magnúsi Jónssyni. Ég er í sambúð með Elfu Hlín Sigrúnar Pétursdóttir og eigum við eina fimm ára stúlku.
Ég starfaði við almenn sveitastörf, sjómennsku og ferðaþjónustu frá unga aldri.
Ég hef stundum sagt að ég sé hjartasjúklingur að aðalstarfi í dag. Það kom þannig til að 35 ára fékk ég vírus í hjartað í kjölfar á þrálátri kvefræmu eins og fólk stundum fær. Afleiðingin var svokölluð hjartabilun sem er óafturkræfur skaði á hjartavöðva og hef ég glímt við afleiðingarnar síðan þá. Eftir að ég fékk bjargráð fyrir 7 árum hefur dagleg líðan mín horfið til betri vegar svo um munar, en er samt í dag 75% öryrki. Ég hef þó alltaf unnið við ýmis störf eins og heilsan hefur leyft. Ber þar að nefna ferðaþjónustu, bæði sem skipstjóri, vélstjóri og ferðaskipuleggjandi. Einnig hef ég starfað í kvikmyndageiranum við fjöldann allan af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, bæði íslenskum og erlendum, sem staðkunnugur ráðgjafi, aðallega á Vesturlandi, um tökustaði, tökustaðastjórnun, fjármögnum verkefna og almenna ráðgjöf.
Ég er ástríðusmiður og hef starfað við það ásamt pípulagna- og rafmagnsvinnu.
Það að hafa getað og tekið þátt í fjölbreyttum atvinnusviðum hefur gefið mér mikið. Ég hef lengi haft áhuga á og fylgst með pólitík og langar hér að nefna nokkur atriði sem ég mun leggja áherslu á sem alþingismaður.
Þau sjálfsögðu mannréttindi að fólk geti dregið fram lífið á sómasamlegan hátt á lægstu launum, ellilaunum, atvinnuleysisbótum og örorkubótum. Þetta er að mínu mati skýlaus krafa og smánarblettur okkar samfélags sem þarf að hverfa.
Ég er landsbyggðarmaður og vil veg landsbyggðarinnar sem mestan. Samgöngur þarf að bæta, ekki síst hinna strjálli byggða, sem margar hverjar hafa dregist aftur úr eðlilegum samgöngubótum í kjördæminu. Það væri að æra óstöðugan að telja það allt upp hér að sinni. Samgöngur eru lífæð samfélagsins og forsenda þess að hægt sé að efla hinar strjálu byggðir með búskap, sinningu hlunninda, ferðaþjónustu og náttúruverndar sem best er tryggð með almennu regluverki og búsetu. Sumarbúskapur þar sem hlúð er að hlunnindum og annarri starfsemi sé ekki litinn hornauga. Förum vel með landið okkar og nýtum það gagn á sjálfbæran hátt sem það gefur. Störf óháð staðsetningu eru alltaf að verða eðlilegri hlutur í hugum okkar og gjörðum og er það vel. Það ætti að geta styrkt landsbyggðina mikið.
Jafnrétti. Þótt ótrúlegt sé á okkar tímum er nauðsynlegt að standa vörð um jafnrétti kynjanna og einnig líka að fólki sé ekki mismunað eftir þjóðerni né trúarskoðunum. Mismunun hvers konar vil ég sjá hverfa úr okkar samfélagi.
Stjórnmálaflokkar eru nauðsynlegar stofnanir (félög) sem halda utan um grasrótina og þær hugmyndir sem fæðast þar. Hinn almenni flokksmaður á að hafa þar rödd á jafnréttisgrundvelli. Stjórnmálaflokkar mega ekki vera stjórntæki sk. flokkseigenda (klíku) eins og þeim oft hefur verið legið á hálsi. Ég hef komið þeirri hugmynd á framfæri að hið eiginlega prófkjör (val til Alþingis) sé stjórnað með atkvæði kjósandans á beinni hátt en nú er gert, sem nokkurs konar blanda af persónukjöri og flokkskosningu. Að kjósandi geti haft áhrif á röð þingmanna inn á Alþingi innan þess flokks sem hann styður og kýs. Held að þessi hugmynd geti stuðlað að vandaðri vinnubrögðum innan stjórnmálaflokkanna og ekki síst vakið betur áhuga almennings á pólitísku starfi sem er á undanhaldi, sérstaklega hjá yngra fólki. Ég legg mikla áherslu á að fundin verði fær leið til lýðræðislegra umbóta.
Að framansögðu sækist ég eftir 3. til 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í næstu kosningum til Alþingis. Ég leyfi mér að fullyrða að ég hafi ýmislegt fram að færa landi okkar og þjóð til heilla.
Virðingarfyllst,
Tryggvi Gunnarsson.“