Nýsköpunarmílan á Ísafirði

Silfurtorgið er á Nýsköpunarmílunni. Mynd: Marzellíus Sveinbjörnsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur, að fengnu áliti atvinnu- og menningarmálanefndar, fallist á að taka þátt í samstarfsverkefni með  Vestfjarðastofu um svokallaða Nýsköpunarmílu Ísafjarðar. Tilgangur verkefnisins er að efla Ísafjörð sem nýsköpunarbæ og ýta undir og efla hugarfar nýsköpunar á svæðinu.

„Nýsköpunarmílan“ er svæði sem næði í frá Torfnesi og niður á höfn. Margs konar
nýsköpunarstarfsemi á sér stað á þessari leið sem hefst í MÍ / Fab Lab og endar við
Skipasmíðastöðina. Á leiðinni er nú þegar fjölbreyttar verslanir, ferðaþjónustufyrirtæki,
veitingastaðir og kaffihús.

Skipaðir verða þriggja manna stýrihópur og sjö manna vinnuhópur þegar málið hefur fengið samþykki bæjarstjórnar.

Í vinnuhópnum verði fulltrúar hverfisráðs, verslunar, þjónustu og skrifstofu, Ísafjarðarbæjar, hafnarstjóri og fulltrúi menningar.

Verkefnið hefði það að markmiði að tengja miðbæinn og hafnarsvæðið saman í gegnum vinnu á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Nú þegar er byrjað að vinna að hugmynd um stækkun á hafnarsvæðinu á Ísafirði, en þar hafa nokkur öflug fyrirtæki sótt um lóðir. Líklegt er að á næstu árum byggist upp meiri þjónusta við þá sem þar starfa og mikilvægt er að tengja vel saman hafnarsvæðið og miðbæinn þannig að ein heild skapist segir í greinargerð með tillögunni.

Tímaáætlun er þannig að byrjað verði á því að kortleggja starfsemi í miðbænum og hafnarsvæðinu og því lokið fyrir lok maí 2021. Nýsköpun á svæðinu verði skráð fyrir lok maí 2021.  Starfsemin verði tengd vinnu við Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar og í kjölfarið mótuð framtíðarsýn Nýsköpunarmílunnar fyrir árslok 2021. Skoðaðar verði  hugmyndir með vinnuhópnum  sem ætlaðar eru til þess að hleypa nýju lífi í  miðbæinn.

DEILA