Skúli Guðjónsson fæddist 30. janúar 1903 á Ljótunnarstöðum í Hrútafirði, Strandasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Guðjón Guðmundsson, f. 1867, d. 1954, og Björg Andrésdóttir, f. 1866, d. 1929.
Skúli ólst upp á Ljótunnarstöðum, var við nám í Samvinnuskólanum 1927-28 og tók við búi foreldra sinna 1936 og bjó þar til 1973. Hann missti sjónina 1946 en gekk þó sjálfur að hirðingu á sauðfé og kúm.
Hann var þjóðþekktur maður á sinni tíð fyrir útvarpserindi og blaðaskrif. Þegar hann varð blindur hamlaði það skrifum hans um hríð en svo lærði hann á ritvél og gaf út sínar fyrstu bækur eftir það. Eftir hann liggja a.m.k. sex bækur og safn ritgerða, meðal þeirra er Bréf úr myrkri frá 1961.
Skúli var vegaverkstjóri í Bæjarhreppi 1943-46, formaður Sjúkrasamlags Bæjarhrepps 1943-46, sat í búnaðarráði 1945, formaður Verkalýðsfélags Hrútfirðinga 1934-36 og formaður ungmennafélagsins í Bæjarhreppi í nokkur ár. Hann sat í flokkstjórn Sósíalistaflokksins.
Eiginkona Skúla var Þuríður Guðjónsdóttir, f. 1908, d. 1963. Þau eignuðust fjögur börn. Skúli lést 20. júní 1986 á Hvammstanga.