Stærsta áskorun Arctic Fish í fjórða ársfjórðungi síðasta árs snéru að mörkuðum fyrir afurðir félagsins. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að markaðsaðstæður hafi verið erfiðar og hafði þróunin á markaðnum verið verri en fyrirtækið bjóst við í upphafi árs. COVID hafði talsverð áhrif og áframhaldandi lokanir á nýjum mörkuðum í Asíu var raunin, þessir markaðir voru í mikilli sókn fyrir tíma COVID. Markaðir í Bandaríkjunum sem og lykilmarkaðir í Evrópu voru ekki í jafnvægi og verð á laxaafurðum var lágt í ársfjórðungi þar sem afurðaverð eru venjulega í hámarki. Almennt er gert ráð fyrir að markaðsþróunin verði jákvæð á seinni hluta ársins 2021.
12.000 tonna framleiðsla í ár
Salan í fjórðungnum nam 3.000 tonnum af slægðum laxi og var heildarsalan á árinu yfir 7.400 tonn. Á þessu ári gerum við ráð fyrir að framleiða um 12.000 tonn og ná stöðugleika í með það magn næstu þrjú árin. Það er í samræmi við afköst seiðaeldisstöðvarinnar og að teknu tilliti til eldisleyfa félagsins. Í burðaliðnum er frekari stækkun seiðaeldisstöðvar og eru nokkur eldisleyfi á lokastigi umhverfismats og því gert ráð fyrir að innan 4 ára muni framleiðslan tvöfaldast. Framtíðaráform félagsins gera því ráð fyrir að árið 2025 verði heildarframleiðslan yfir 24.000 tonn.
Tekjur 5,5 milljarðar króna í fyrra
Tekjur félagsins námu um 12 milljónum evra í fjórðungnum en heildartekjur félagsins á árinu voru 36 milljónir evra. Í þessum síðasta ársfjórðung var neikvæð EBIT sem nam 0,41 evru á kg og voru lág verð á mörkuðum megin ástæða fyrir þessari neikvæðu þróun. EBITDA félagsins var jákvæð á árinu upp á 4,2 milljónir evra. Nettó vaxtaberandi skuldir voru um 45 milljónir evra við lok ársins.
„Það er jákvætt að laxeldisuppbygging sem og áætlanir félagsins um lækkun framleiðslukostnaðar náðust samhliða mikilli uppbyggingu á lífmassa.“ segir í fréttatilkynningunni. Kostnaðurinn var rétt rúmlega 4 evrur fyrir hvert selt kg miðað við slægðan lax. „Áfram stefnir félagið að því að lækka framleiðslukosnaðinn og halda áfram þeirri góðri vegferð sem starfsfólk félagsins hefur unnið að til þess að ná þeim markmiðum. Stærðarhagkvæmni er mikilvæg í fiskeldinu og því mun frekari framleiðsla á þessu ári vera mikilvæg.“ Eigendur félagsins telja kostnaðarþróunina styðja við langtíma markmið og vaxtar möguleika félagsins sem og laxeldisins í heild á Íslandi.
Skráning á norska hlutabréfamarkaðinn
Félagið er statt í miðju skráningarferli á Norska hlutabréfamarkaðinn Euronext Growth í Osló en megin áherslan undanfarið hefur verið að kynna félagið og starfsemi þess fyrir innlendum fjárfestum sem hefur gengið vel. Þá eru fram undan kynningar gagnvart erlendum fagfjárfestum. Nú þegar hefur Norway Royal Salmon, 50% eigandi í Arctic Fish gefið til kynna að það hyggst kaupa 50% af þeirri hlutafjáraukningu sem fyrirhuguð er.
Eins og áður hefur komið fram í tilkynningum félagsins þá eru það DNB, Pareto Securities og Arion Banki sem eru ráðgefandi í ferlinu. Gert er ráð fyrir að hlutafjárskráningunni ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2021.