Fyrsta umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um fjárstuðning við fjölmiðla fór fram í síðustu viku. Gert er ráð fyrir að verja 400 milljónum króan til stuðnings fjölmiðlum. Samkvæmt skilyrðum frumvarpsins fer meginhluti stuðningsins til fjölmiðla á höfuðborgarsvæðinu og getur hver fjölmiðill fengið allt að 100 milljónum króna.
Við ákvörðun um fjárhæð rekstrarstuðnings skal meðal annars litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið á undan, ásamt útgáfutíðni. Rekstrarstuðningur skal að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda en þó ekki hærri en fjörðungur af heildarfjárveitingunni.
Á fjölmiðli skulu starfa a.m.k. þrír starfsmenn í fullu starfi við að afla og miðla efni, en
einn starfsmaður hjá staðbundnum fjölmiðli.
Í ræðu sinni um frumvarpið fjallaði Guðjón Brjánsson einkum um það út frá stöðu landbyggðarfjölmiðla sem sætu ekki við sama borð og stóru fjölmiðlarnir og bæru skarðan hlut frá borði.
Hann ræddi um hlutverk fjölmiðla í dreifbýli og sagði m.a. :
„fjölmiðlar í dreifbýli hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna, bæði staðbundnu og á landsvísu. Þeir eru gjarnan eins konar gátt inn í samfélag sem fjölda fólks er ella eins og lokuð bók, þeim sem ekki búa á viðkomandi svæðum en vildu gjarnan fylgjast með þeim hræringum sem þar eiga sér stað. Þrátt fyrir umrót og nýja tækni gegna þeir enn mikilvægum verkefnum sem frétta- og menningarmiðlar og að vera kynningarvettvangur á sínu svæði. Þeir draga fram sérstöðu í byggðunum, halda á stundum uppi vörnum fyrir svæðisbundin hagsmunamál sem varða miklu.“
Þá vék hann að fjárhagsgrundvelli þeirra:
„Hefðbundinn rekstrargrundvöllur flestra einkarekinna fjölmiðla, a.m.k. minni fjölmiðla á landsbyggðinni, virðist nánast brostinn. Ástæðurnar eru nokkrar. Það hafa orðið gríðarlegar tæknibreytingar á allra síðustu árum, auglýsingatekjur hefðbundinna fréttablaða hafa dregist saman og færst annað. Fyrirtæki eru farin að haga markaðssetningu með fjölbreytilegri hætti og með öðrum brag. Erlendar efnisveitur eru að verða æ stórtækari á innlendum samkeppnismarkaði fjölmiðla og miðlunaraðferðirnar eru orðnar af öllu tagi.“
Loks sagði Guðjón Brjánsson það koma of oft fyrir að stofnanir ríkisins auglýstu aðeins í dagblöðunum sem gefin eru út í Reykjavík og hafa takmarkaða útbreiðslu á landsbyggðinni.
„Allt of mikið er um að slíkar stofnanir, sérstaklega stofnanir í Reykjavík, sem samt eiga að þjóna öllum landsmönnum, auglýsi einvörðungu í dagblöðum sem eru margfalt minna lesin á landsbyggðinni en staðbundnir fjölmiðlar. Íbúar á landsbyggðinni fara af þeim sökum jafnvel á mis við opinberar upplýsingar sem allir ættu að hafa jafnan aðgang að. Dagblöðin eru í dag, eins og landsbyggðarútgefendur orða það, fyrst og fremst héraðsfréttablöð höfuðborgarsvæðisins og útbreiðsla margra þeirra á landsbyggðinni er takmörkuð að þeirra mati.“