Karíus og Baktus heimsækja Hérastubb bakara

Leikhópurinn á æfingu í gær.

Í Grunnskólanum á Drangsnesi eru nú allir í óða önn við að láta síðustu púslin falla á rétta staði áður en tjöldin verða dregin frá leiksviðinu á morgun er frumsýnt verður þar á bæ leikritið Þríleikur Þorbjörns. Í verkinu taka þátt allir nemendur skólans ásamt leikskólabörnunum en í Kaldrananeshreppi eru fjórtán börn á leik- og grunnskólaaldri og eru það nemendurnir sjálfir í samstarfi við kennara sem unnu verkið.

Þríleikur Þorbjörns er unnið upp úr þremur af þekktustu leikverkum Thorbjörns Egners; Dýrunum í Hálsaskógi, Kardemommubænum og Karíusi og Baktusi. Marta Guðrún Jóhannesdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Drangsnesi segir góðan anda hafa ríkt meðal leikaranna ungu á æfingatímanum og börnin hafi í hvívetna staðið sig vel enda mörg hver þrautreynt leikhúsfólk eftir hverja metnaðarfulla leiksýninguna á fætur annarri síðustu ár:

„Það er löng hefð fyrir því að setja upp leikverk á árshátíð skólans en meðal þeirra verka sem sett hafa verið upp eru fjölskyldusöngleikurinn Horn á höfði og frumsamda verkið Draumurinn um Nínu þar sem leikin voru lög úr Júróvisjón. Mikill metnaður hefur verið lagður í þessar sýningar og hafa bæjarbúar verið afar hjálpsamir, aðstoðað við gerð leikmyndar og þess háttar. Á sýninguna er jafnan fjölmennt; ættingjar og vinir koma sunnan að ásamt nágrönnum okkar í sveitarfélögunum hér í kring.“

Leikhópar gerast vart mikið krúttlegri.

Að þessu sinni frekar en áður er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og er Thorbjörn Egner eitt elskaðasta leikskáld sem sögur fara af hér við land. En hvers vegna var valið að fara þessa leið?

„Þegar kominn var tími til þess að velja verk fyrir þetta skólaár var ákveðið að halda fund þar sem nemendur og kennarar kynntu hugmyndir sínar að leikverki. Margar hugmyndir komu fram á fundinum og þar sem nemendur höfðu margir áhuga á því að setja upp tilbúið leikverk á meðan aðrir vildu gjarnan skapa sjálfir nýtt verk varð niðurstaðan sú að gera hvortveggja. Börnin settu saman lista yfir senur úr leikverkum Thorbjörns Egners og kynntu sér feril hans. Þegar búið var að velja senur var komið að því að leika sér með efniviðinn það er að skapa nýtt verk úr þessu kunna efni. Þess vegna sjáum við nú persónur úr einu leikriti heimsækja þær sem við þekkjum úr öðru, Karíus og Baktus líta við hjá Hérastubbi bakara og nú eru það ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan sem ræna Bangsa litla. Sjálfur Thorbjörn Egner treður upp í leikritinu og margt mun koma áhorfendum á óvart í þessari uppsetningu,“ segir Marta Guðrún og bætir við að íbúum svæðisins þurfi ekki að leiðast næstu misserin þar sem heilmargt er framundan í hreppnum í sumar. Meðal annars verður Bryggjuhátíðin endurvakin, opnuð verður sýning í tilefni þess að tuttugu ár eru frá því heita vatnið fannst á Drangsnesi og sænski myndlistarmaðurinn Erik Sjödin heimsækir Gamla bókasafnið þar sem aftur verður starfræktur markaður með vörum úr héraði líkt og síðasta sumar.

 

annska@bb.is

DEILA