Útsvar, sem innheimt var í staðgreiðslu á tímabilinu frá febrúar til desember 2020, var 4% hærra en á sömu mánuðum í fyrra.
Á fyrri hluta ársins, frá febrúar til júní 2020 var staðgreiðslan 0,4% meiri en 2019. Hins vegar var staðgreiðslan 7,2% meiri á tímabilinu júlí til desember 2020 en á sömu mánuðum 2019. Í fréttabréfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að þessi umskipti seinni hluta ársins megi rekja til aðgerða ríkisstjórnar í vinnumarkaðsmálum. Skiptir þar sköpum hin sk. hlutabótaleið og lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
Staðan best á Vestfjörðum
Allmikill munur er á þróun staðgreiðslu útsvars milli landshluta, en eins og fram kemur á mynd 2 er hækkunin mest á Suðurlandi og minnst á Suðurnesjum. Tekjur af staðgreiðslu útsvars hækkaði aðeins um 1,5% á tímabilinu febrúar til desember á Suðurnesjum, en um 4,6% á Suðurlandi og litlu minna á á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.
Taka þarf tillit til breytinga á íbúafjölda og atvinnuleysi þegar staðan er metin. Þegar það er gert kemur í ljós, skv. bláu súlunum, að útsvarstekjur á hvern íbúa hafa hækkað mest milli ára á Vestfjörðum eða um ríflega 4%. Á höfuðborgarsvæðinu er hækkunin aðeins helmingur þess eða um 2% og á Suðurnesjum hafa tekjurmar lækkað um 0,5%, en atvinnuleysið er mest þar.
Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa fengið þær tekjur af útsvari sem búist var við, þrátt fyrir kórónaveirufaraldurinn þar sem atvinnuástand hefur haldist gott. Atvinnuleysi á Vestfjörðum árið 2020 var 3,9% en landsmeðaltalið var 7,7%.
Hins vegar hafa tekjur þeirra frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dregist töluvert saman sem hefur skapað fjárhagsvanda.