Bæjartóftirnar á Sjöundá

Á myndatökuferð Þorsteins Jósepssonar um Barðastrandarsýslu sumarið 1939 var Egil Egilsson kaupfélagsstjóri fylgdarmaður hans að Sjöundá og inní Skor. Egill var frá Sjöundá.
Þar voru aðeins uppistandandi tóftir seinasta bæjarins, sem byggður hafði verið skömmu eftir 1900, því bærinn fór úr ábúð 1921. „Bærinn stóð hátt í túninu, aðeins snertispöl frá brekkufætinum.
Þar hafa fjórir gaflar snúið til sjávar og borið nokkuð hátt, séð frá bökkunum, því túnið er talsvert bratt.“ Þorsteinn velur að mynda rústirnar bakatil. Vegna staðhátta var erfitt að taka góða mynd af bæjartóftunum. Í rústunum má greina þústir þriggja bursta; ganga, baðstofu og hlöðu en skemman sést ekki á myndinni.

Fyrst var grjóthlaðin hlaða með hálfþili að framan. „Síðan kom húsasund þar sem hlöðuveggurinn var önnur hliðin á en síðan lágur og mjór pallur yfir að baðstofuveggnum og sem hefur verið æði hár eða svipaður og hlöðuveggurinn. Bærinn sneri timburgafli fram og var stofa niðri með sex rúðu glugga á miðjum gaflinum. Gaflinn var lagður tjörupappa og trélistum til að halda pappanum. Grjótveggur náði allt undir gluggann. Að baki stofunni var eldhúsið og gengið á milli þeirra um hurð á miðju þili. Sennilega hafa stofa og eldhús verið af svipaðri stærð og bæði þiljuð í hólf og gólf, trúlega með panel. Úr eldhúsi var stigi á baðstofuloft. Til hliðar við stigann í eldhúsinu var komið fyrir einum fjögra rúðu glugga út í áður nefnt sund á milli baðstofu og hlöðu og var hlaðin tóft að honum gegnum vegginn. Hefur því ekki verið mikið útsýni um gluggann þann og birtan verið af skornum skammti sem átti aðgang að honum. Þegar komið var upp úr bröttum stiganum á baðstofuloftið hefur verið komið í aðra vistarveruna þar og hefur hún verið með tvo litla kvistglugga á hliðum þaksins, en efri gaflinn var grjótveggur allt í ris. Hin vistarveran var sú sem sneri gafli fram á hlaðið og þar var fjögra rúðu gluggi. Skarsúð hefur verið á baðstofuþakinu og torf að utan, en niðurhleyping verið klædd með panel. Veggjahæð virðist benda til að niðurhleypingin hafi ekki verið mikil. Næsta hús í röðinni voru göngin og var sú bygging jafnlöng baðstofunni en miklu mjórri. Voru þau með timburgafli sem sneri að hlaðinu. Gengið var þar inn að framan og síðan til vinstri í gegnum göng sem hlaðin voru til eldhúss, og var hurð á eldhúsklæðningunni beint á móti stiganum. Þessi innri göng voru að sjálfsögðu jafnlöng þykkt veggjarins á milli ganga og baðstofu. Göngin hafa sennilega verið óþiljuð, en þegar komið var inn fyrir ganginn sem lá til eldhúss var þiljað sundur og innan þess þils var búrið. Fremri göngin hafa verið lýst með glugga á efri hæð gaflsins, en gaflinn sá hefur verið miklu lægri en á baðstofunni, enda ekki loft í sjálfum göngunum. Yfir búrinu mun þó hafa verið loft og þar var sofið stundum. Innsta húsið var skemma og með hálfgöflum. Þar hafa verið geyms ýmiss konar búsgögn og amboð.“

Bæði Skor og Sjöundá hafa sögulegar vísanir auk stórbrotins landslags. Svartfugl skáldsaga Gunnars Gunnarssonar um Sjöundármálið kom út á dönsku áratug fyrr eða 1929 en á íslensku árið 1938 og við það urðu örlög þeirra Bjarna og Steinunnar þjóðkunn. Frá Sjöundá er fallegt útsýni yfir sandinn og bjargið.

Byggt á skrifum og frásögn Ara Ívarssonar heimildarmanns um myndir Þorsteins Jósepssonar úr Barðastrandasýslu.

Af vef Þjóðminjasafnsins

DEILA