Tálknafjörður er sjálfstætt sveitarfélag og er eins konar eyja sem umlukin er sveitarfélaginu Vesturbyggð.
Eins og títt er um vestfirsku þorpin byggðist Tálknafjörður fyrst og fremst upp í kringum fiskveiðar.
Fyrrum var mikið róið frá verstöðvum beggja vegna fjarðarins og í lok 19. aldar reistu Norðmenn hvalveiðistöð á Suðureyri við sunnanverðan fjörðinn.
Fjölgaði þá íbúum á svæðinu talsvert en eiginleg þéttbýlismyndun hófst þó í raun ekki fyrr en um miðja 20. öldina.
Fiskveiðar eru enn afar mikilvægar í atvinnulífi Tálknfirðinga.
Þeir hafa einnig sótt fram í nýjum greinum fiskiðnaðarins, reka til dæmis umfangsmikið fiskeldi auk þess sem bærinn er vinsæll áfangastaður erlendra sjóstangveiðimanna.
Ferðaþjónustan hefur farið vaxandi á Tálknafirði enda hefur bærinn og nágrenni hans upp á margt að bjóða.
Sundlaugin, sem staðsett er alveg við hið frábæra tjaldsvæði Tálknfirðinga, þykir ein sú besta á Vestfjörðum og ekki er síðra að heimsækja Pollinn, heitu pottana í landi Litla-Laugardals, skammt utan við bæinn.
Mikið er um fallegar gönguleiðir við Tálknafjörð.
Við Arnarstapa er til að mynda einstök kyrrð og náttúrufegurð og ekki er síðra að ganga að Suðureyri þar sem hvalveiðistöðin stóð forðum.
Þar er laut sem sögð er vera álfabyggð. Ef göngufólk leggst þar til hvílu og lætur sér renna í brjóst mun það dreyma fyrir framtíð sinni.
Af vefsíðu Markaðsstofu Vestfjarða