Á mánudaginn fékk leikskólinn Araklettur á Patreksfirði góða gjöf. Nemendur og starfsfólk Patreksskóla mættu með nýsmíðað útieldhús.
Einar Skarphéðins smíðakennari hannaði og vann verkið með hjálp frá nemendum í Patreksskóla. Virkilega falleg og góð gjöf.
Sigríður Gunnarsdóttir, leikskólastjóri sagði að starfsfólk og nemendur á Arakletti væru himinlifandi með gjöfina.
Dúkkuföt frá Eyrarseli
Það var ekki eina gjöfin sem leikskólinn fékk því á dögunum færði Guðný Ólafsdóttir dúkkuföt sem eldri íbúar sveitarfélagsins í Eyrarseli hafa verið að prjóna fyrir nemendur leikskólans. „Það er ómetanlegt þegar íbúar hugsa svona vel til okkar og færa leikskólanum góðar gjafir“ sagði Sigríður og bætti við: „Virkilega fallegt handverk.“
Myndir: Sigríður Gunnarsdóttir.