Landsbankinn skuli vera í eigu allra Íslendinga

Auðkúluhreppur var hreppur norðan Arnarfjarðar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, kenndur við bæinn Auðkúlu. Hreppurinn var sameinaður Þingeyrarhreppi 1. apríl 1990. Mynd: Mats Wibe Lund.

Búnaðarfélag Auðkúluhrepps kom saman til aðalfundar á laugardag og að vanda fóru umræður þar fram á hreinni vestfirsku. Á fundinum var samhljóða samþykkt sú tillaga að Landsbankinn skyldi vera að öllu leiti í eigu allra Íslendinga:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps krefst þess af Alþingi og ríkisstjórn að ekki verði seldur fimmeyringur í Landsbankanum. Fundurinn telur að alls ekki megi hleypa erlendum fjárglæframönnum og vogunarsjóðum með krumlurnar í sjóði hans. Það er álit fundarins að Landsbankinn eigi að vera 100% í eigu allra Íslendinga. Viðskiptabanki fyrir venjulegt fólk. Alveg eins og sparisjóðirnir voru. Það þarf að lýsa þessu yfir í eitt skipti fyrir öll fyrir hönd eigendanna. Bankinn á ekki að standa í neinu peningaþvætti.“

Þá spöruðu félagsmenn heldur ekki stóru orðin þegar málefni útgerðanna bar á góma: „Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps ályktar að það sé algjörlega óásættanlegt að útgerðarmenn, að þeim ólöstuðum, ráði því hvar byggð skuli haldast í sjávarplássum á Íslandi. Fiskvinnslufólkið og íbúar byggðarlaga vítt og breitt um landið á sinn rétt engu síður en stórútgerðirnar.“

Þá var einnig skráð á fundinum brýning til ríkisstjórnar og Alþingis varðandi málefni Hrafnseyrar við Arnarfjörð um hvort ásættanlegt væri að fæðingarstaður Jón Sigurðssonar væri mannlaus eyðistaður 8 mánuði á ári.

annska@bb.is

DEILA