Verulegar kjarabætur tóku gildi um áramótin

Nú um áramótin hækkuðu laun og kauptaxtar sem hluti af umsömdum hækkunum Lífskjarasamninganna. Almennar launahækkanir um áramótin voru 15.750 kr. á mánuði í samningum SGS/VR ásamt því að kauptaxtar hækka um 24.000 kr. á mánuði.

Til viðbótar við umsamdar hækkanir taka gildi breytingar á skatta og tilfærslukerfum sem auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Má þar nefna síðari hluta breytinga á tekjuskattkerfinu og breytingar á barnabótum sem fela í sér hækkun á skerðingarmörkum.

Þær breytingar sem komu til framkvæmda á áramótum fela fyrst og fremst í sér lækkun á tekjuskattshlutfalli í fyrsta þrepi, úr 35,04% í 31,45%, og hækkun þrepamarka í þrep 2 úr 336.916 kr. í 349.018 kr. á mánuði. Samhliða þessum breytingum hækkar hlutfall í miðþrepi og persónuafsláttur lækkar úr 54.628 kr. í 50.792 kr. á mán.

Sem dæmi um þessa breytingu má nefna:

Aðili sem árið 2020 var með 350 þús. krónur í mánaðarlaun var með 336 þús. kr. í skattstofn eftir að framlag í lífeyrissjóð hafði verið dregið frá. Alls reiknaðist 117.734 kr. í staðgreiðslu en eftir nýtingu persónuafsláttar voru greiddar 63.106 kr. í skatt og laun eftir skatt því 272.894. Fái sami aðili 15.750 kr. í almenna launahækkun á áramótum, eru mánaðarlaun nú um 365 þús. Staðgreiðsla er nú 110.563 kr. og eftir nýtingu persónuafsláttar eru greiddar 59.771 kr. í skatt og laun eftir skatt um 291 þús. Laun hækkuðu því um 15.750 en ráðstöfunartekjur, eftir skatt um 18.454 kr. Hlutfall skattsins af launum lækkaði jafnframt úr 18% í 16,3%.

Neðri skerðingarmörk barnabóta hækkuðu einnig um áramótin. Breytingin felur í sér að barnabætur byrja ekki að skerðast fyrr en við 351 þús. kr. á mánuði en áður byrjuðu barnabætur að skerðast við 325 þús. kr. á mánuði.
Þar sem skerðingar miðast við skattstofn merkir breytingin að barnabætur eru nú óskertar við launatekjur upp á 365 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingum.
Breytingar hafa einnig áhrif á hjón og sambúðarfólk en þar hækka neðri skerðingarmörkin úr 650 þús. kr. í 702 þús. kr. á mánuði.

DEILA