Merkir Íslendingar – Selma Kaldalóns

Selma Kaldalóns (Cecilía María) tónskáld, f. 27.12. 1919 á Ármúla við Ísafjarðardjúp, fjórða og yngsta barn Sigvalda Kaldalóns, tónskálds og læknis, og konu hans, Karenar Margrethe. Selma var eina barn Sigvalda sem lagði stund á tónlist. Sigvaldi var læknir í Ísafjarðardjúpi 1910-1921 og sat í Ármúla.

Sigvaldi samdi lagið „Erla“ við ljóð Stefáns frá Hvítadal nóttina sem Selma fæddist og tileinkaði henni lagið.

Selma mjög lítil þegar hún fór að sitja hjá föður sínum við hljóðfærið og reyna að spila sjálf. Margrét Kaldalóns, dóttir Selmu segir: „Fjögurra til sex ára sagði hún að hún hefði verið byrjuð að sitja við hliðina á föður sínum og spila eða reyna að spila.“

Selma Kaldalóns giftist Jóni Gunnlaugssyni lækni árið 1944. Á árunum 1944-1962 eignuðust þau 9 börn og auk þess ólu Selma og Jón upp eitt barnabarn sitt. Árið 1976 tók útvarpsmaðurinn Pétur Pétursson viðtal við Selmu og þar kemur fram að hún hafi byrjað að semja lög þegar þau hjónin voru búsett á Reykhólum á Barðaströnd, en Jón varð læknir þar í héraðinu árið 1947.

Selma segir:

Ég samdi mér til hugarhægðar eða fyrir börnin, oft. Fyrsta lagið var „Gamla konan“ [við ljóð] eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld. Þá var maðurinn minn úti í eyjum, það var blindbylur og ég var ein með börnin heima. Þá fletti ég oft svona bókum og las þetta kvæði sem mér fannst svo hrífandi, og gerði strax lag við það. Það var að næturlagi.

Þau hjónin voru búsett á Barðaströnd til 1953 og um tíma var Selma organisti og kórstjóri við Reykhólakirkju. Frá 1953-1965 voru Jón og Selma búsett á Selfossi þar sem hann starfaði sem læknir. Hann varð síðar læknir í Reykjavík og þau hjónin settust að á Seltjarnarnesi.

Árið 1978 komu 12 lög eftir Selmu út á hljómplötu, ásamt 10 lögum eftir föður hennar, sungin af Guðrúnu Tómasdóttur. Guðrún segir þannig frá samstarfi sínu við Selmu í bókinni „Söngurinn og sveitin“ sem Bjarki Bjarnason skráði.

Það var eftirminnilegt að vinna með Selmu. Hún lék lögin eftir eyranu en hafði ljóðabækur við hendina, þannig lét hún orð og tóna spila saman.

Selma lést af slysförum árið 1984. Tveimur árum síðar kom út hljómplatan „Má ég í fang þér færa“, en þar minntust nokkrir söngvarar Selmu með því að syngja lög eftir hana.

Tónlistin var Selmu Kaldalóns bæði náðargjöf og fylginautur. Hún nam píanóleik hjá föður sínum og Else Stender, heimiliskennara um eins árs skeið og síðan eitt ár við Tónlistarskólann í Reykjavík. En þrátt fyrir annasöm ár sem húsmóðir á stóru heimili, var tónlistarandinn úr föðurhúsum með í för og sköpunarandi hinnar ungu húsmóður sveif nú yfir hennar eigin heimili. Á Reykhólum munu fyrstu lög hennar orðið heyrinkunn, en þeim fjölgaði er tómstundir gáfust. Fálkinn gaf út hjómplötu árið 1977 með tólf lögum Selmu og tíu sönglögum Sigvalda föður hennar. Guðrún Tómasdóttir söngkona söng öll lögin á þessarri plötu. Hallgrímur Helgason tónskáld hefur skrifað um lög Selmu og segir m.a. ,,Tóngáfa er oft arfgeng. Þannig hefur Selma Kaldalóns hlotið ríflegan föðurarf. Selma hefur dálæti á valsins þrískiptu hrynjandi og greiðir náttúrlega úr stuttum, haglega stefjuðum tónhendingum. Tónskyn hennar er fjölvíst frekar en fjölbreytið og tónminni óskeikult.“ Þá gaf Selma einnig út 27 sönglög á nótum 1983 og tileinkaði foreldrum sínum.

RUV 4.12. 2019 og minningarsíða um Selmu Kaldalóns 12.7. 2012.

 

DEILA