Landsþing sveitarfélaga : Marzellíus gat ekki kosið

Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á föstudaginn með fjarfundarsniði. Þar bar hæst að greidd voru atkvæði um tillögu þar sem lagt var til að falla frá lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Einn af þremur fulltrúum Ísafjarðarbæjar með atkvæðisrétt var Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Marzellíus hafði í viðtali við Bæjarins besta lýst yfir stuðningi við tillöguna. Aðspurður um það hvernig hann hefði greitt atkvæði sagði Marzellíus að honum hefði ekki tekist að greiða atkvæði þar sem kóðinn sem hann fékk sendan hafi ekki opnað atkvæðagreiðslukerfið. Kvaðst Marzellíus hafa gert nokkrar árangurslausar tilraunir til þess að greiða atkvæði en látið þar við sitja. Sagði hann að hann hefði stutt tillöguna í atkvæðagreiðslunni.

Á þinginu voru 136 fulltrúar skráðir með atkvæðisrétt. Alls voru 123 atkvæði greidd og vantaði því 13 atkvæði. Atkvæðin féllu þannig að 67 voru andvígir tillögunni, 54 studdu hana og 2 sátu hjá.

Valur Rafn Halldórsson, starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að notast hafi verið við kerfi frá Outcomekönnunum þar sem allir þurftu að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Hann segir að ekki sé öruggt að  allir þessir einstaklingar hafi setið allt þingið.

Tíminn sem gefin var til atkvæðagreiðslu var framlengdur vegna vandræða einhverra fulltrúa en Valur Rafn segir:

„Þegar kosning fór fram var gefinn góður tími og allir sem voru í vandræðum voru beðnir um að hafa samband til að tryggja að allir næðu að skila inn sínu atkvæði. Allir sem höfðu samband fengu aðstoð og höfum við ekki fengið neina ábendingu um að einhver hafi ekki getað kosið. Enda tel ég það mjög ólíklegt þar sem þetta kerfi var mjög einfalt í notkun. Svo getur auðvitað  verið að einhverjir hafi bara ekki viljað kjósa.“

Leynileg atkvæðagreiðsla

Að lokum áréttaði Valur Rafn að það væri á ábyrgð hvers og eins að skila inn sínu atkvæði og tæknilega voru engin vandræði og var kerfið að hans sögn kynnt vel fyrir kjörnum fulltrúum.

Ekki var unnt að fá upplýsingar um það á hvern veg hver fulltrúi greiddi atkvæði og sagði starfsmaður Sambandsins að atkvæðagreiðslan væri leynileg.

DEILA