Samband sveitarfélaga: úrslitin áfall fyrir formann og stjórn – klofningur yfirvofandi

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri á Grenivík.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélag var haldið í dag.  Þar var meðal annars til afgreiðslu tillaga 20 minni sveitarfélaga, þar sem lagt var til að horfið yrði frá stuðningi við að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélögum yrði lögfestur.

Úrslit urðu þau að tillagan var felld með 54% gegn 44% eða 67 atkvæðum gegn 54.  Þess má geta að þau tuttugu sveitarfélög sem lögðu tillöguna fram höfðu aðeins 19 atkvæði á þinginu en alls voru 136 með atkvæðisrétt.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri á Grenivík og sá sem talaði fyrir tillögunni segir að Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambandsins hafi talað mjög ákveðið gegn tillögunni og lýsti andstöðu 10 stjórnarmanna af ellefu. Það var aðeins Gunnar Einarsson. bæjarstjóri í Garðabæ sem studdi tillöguna.

Þröstur segir að niðurstaðan hljóti að vera mikið áfall fyrir formann og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.  „Hún staðfestir að formaður hefur farið með rangt mál um breiða samstöðu sveitarstjórnarstigsins um íbúalágmark, gagnvart þjóð og þingi.“

 

„Ráðherra opnaði hins vegar á það á þinginu að halda áfram með frumvarp um styrkingu sveitarstjórnarstigsins án ákvæðis um íbúalágmark.  Ég tel að það muni verða niðurstaðan.“

 

Þröstur segir að flutningsmenn séu afskaplega þakklát fyrir þann hljómgrunn sem  málflutningur þeirra fékk og hann telur að enn fleiri séu sammála þeimr í hjarta sér, þó þeir hafi ekki treyst sér til að kjósa gegn formanni og stjórn.

Klofningur yfirvofandi

„Sambandið þarf síðan að horfa inn á við og skoða hvernig það sinnir sínu hlutverki í hagsmunagæslu fyrir sín aðildarfélög. Það eru líkur á að minni sveitarfélög myndi með sér formlegan félagsskap  á næstunni til að sinna eigin hagsmunagæslu, nema mikil stefnubreyting verið á störfum Sambandsins.“

 

DEILA