Algengur verðmunur á jólabókum 1.500-2000 kr.

Í yfir helmingi tilfella var 1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á vinsælum jólabókum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 10. desember.

Í 12 tilfellum af 53 var verðmunur á bókum yfir 2.000 kr. en mest fór munurinn upp í 3.000 kr. Penninn.is var oftast með hæsta verðið í könnuninni en Forlagið var næst oftast með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið.

Penninn Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni og var fulltrúa verðlagseftirlits ASÍ vísað út úr versluninni í Austurstræti. Fyrirtækið virðist ekki telja það þjóna hagsmunum sínum að neytendur séu upplýstir um verð í versluninni. Rétt er að vekja athygli á að verð var kannað á Penninn.is sem er netverslun Pennans Eymundssonar.

2.000 kr. verðmunur á barnabókum

Í mörgum tilfellum var mikill verðmunur á barnabókum en mestur munur á hæsta og lægsta verði á barnabók var 2.101 kr. eða 35% á bókinni Krakkalögin okkar. Lægst var verðið í Bónus, 3.898 kr. en hæst á Penninn.is, 5.999 kr. Þá var 38% eða 1.501 kr. munur á bókinni Öflugir strákar: Trúðu á sjálfan þig eftir Bjarna Fritzson. Lægst var verðið í Nettó, 2.589 kr. en hæst í Hagkaup, 3.999 kr.

Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast ört í verslunum á þessum árstíma.

DEILA