Lagt hefur verið fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar erindi frá Tónlistarfélagi Ísafjarðar, þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagið yfirtaki rekstur og viðhald húsnæðis Tónlistarskólans við Austurveg 11 á Ísafirði, en að rekstrarfyrirkomulag Tónlistarskólans haldist óbreytt.
Gert er ráð fyrir að Hamrar verði áfram eign Tónlistarfélagsins og nýting Hamra af
Tónlistarskólanum verði með óbreyttu sniði. Komi til viðhaldskostnaðar
vegna samskeyta Tónlistarskólahúsnæðis og Hamra verður sá kostnaður á
hendi Ísafjarðarbæjar samkvæmt erindi félagsins.
Ísafjarðarbær myndi samhliða yfirtökunni gera nýtingarsamning við Tónlistarskólann þar sem yfirráð hans yfir húsnæðinu væru tryggð svo lengi sem hann er starfræktur þar. Einnig yrði í honum skýrt hvernig daglegu viðhaldi og húsvörslu yrði háttað. Komi upp hugmyndir um nýtingu á honum fyrir utan skólatíma yrði það gert í fullu samráði við skólastjóra.
Í erindi Tónlistarfélagsins er vísað í 6.gr.samstarfssamnings Bæjarstjórnar Ísafjarðar og Tónlistarfélags Ísafjarðar frá 26.júní 1997, en þar segir að söluandvirði húsnæðisins skuli skiptast að jöfnu milli samningsaðila og verði nýtt til áframhaldandi tónmenntunar í bæjarfélaginu. Tónlistarfélagið vill að atriði samningsins haldist þrátt fyrir yfirtöku, en viðhaldskostnaður húsnæðis frá yfirtöku Ísafjarðarbæjar til söludags dragast frá hluta Tónlistarfélags. Þetta á við ef afgangur yrði af söluandvirði eftir uppbyggingu aðstöðunnar annars staðar.
Bæjarráðið leggur til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði falið að hefja viðræður við Tónlistarfélag Ísafjarðar um málið.
Á sama fundi var einnig afgreitt annað erindi frá Tónlistarfélaginu og samþykkt að veita Tónlistarfélagi Ísafjarðar styrk vegna fasteignagjalda áranna 2019 og 2020.