Tveir bæjarfulltrúar Í listans andvígir lögþvingaðri sameiningu

Þórir Guðmundsson, bæjarfulltrúi Í listans segist styðja heils hugar framkomna tillögu frá sveitarstjórnarfólki í 20 sveitarfélögum landsins, þar sem hafnað er lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga með því að setja lágmarksíbúafjölda fyrir sjálfstætt sveitarfélag.  Tillagan verður tekin til afgreiðslu á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í næstu viku. Meðal flutningsmanna eru fulltrúar í 6 sveitarfélögum á Vestfjörðum.

Þórir segir að hann sé hinsvegar á því að „það þurfi að fækka sveitarfélögum um landið og minnka yfirbyggingu þeirra, en sveitafélögin þurfa sjálf að vilja sameinast öðrum.“

 

Sigurður Jón Hreinsson, einnig bæjarfulltrúi Í listans tekur í svipaðan streng:

„Ég hef í mjög mörg ár verið þeirri skoðunar, og ekki legið á henni, að það eigi að vera ákvörðun íbúa í hverju sveitarfélagi, hvernig framtíð þess verði háttað.  Ég er í sjálfum sér ekki á móti sameiningu sveitarfélaga, ef það gerist á forsendum íbúanna sjálfra.  Sjálfsákvörðurnarréttur sveitarfélaga (og íbúa þeirra) er hornsteinnin í starfi þeirra og tilvist, alveg jafnt og á við um þjóðríki.“

Sigurður sendi jafnframt  svarinu við fyrirspurn Bæjarins besta nánari greinargerð til skýringar á afstöðu sinni:

„Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga staðfestur og kveðið á um að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Haldgóð rök og verulegir hagsmunir þurfa því að koma til ef skerða á þennan ákvörðunarrétt. Bein íhlutun um lágmarksútsvar getur tæpast talist uppfylla þau skilyrði.“ 

Þessi texti stendur í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (afnám lágmarksútsvars).  (146. löggjafarþing 2016–2017. Þingskjal 179  —  120. mál.)  Og mér finnst hann eigi bara á allann hátt við ef skipt er út orðinu „lágmarksútsvar“ fyrir „lágmarksíbúafjöldi).

 

Það er því að mínu mati alröng nálgun að tala um einhverja lágmarksíbúatölu í sveitarfélögum sem einhverja töfralausn á öllu..  Ef menn vilja fara að tala um heppilegar stærðir á sveitarfélögum, eru kanski tveir mælikvarðar sem mætti líta til:  Annars vegar íbúafjöldi – hámarks og lágmarks ?  Hinsvegar landfræðilegar fjarlægðir – hámarks og lágmarks.  Þannig gæti það verið gagnlegt viðmið að notast við skilgreiningu Vegagerðarinnar á þjónustusvæði, sem hámarksstærð landfræðilega.  Að 80-100km væri hámarksvegalengd frá þjónustukjarna að íbúum.  Í öllu falli þætti mér eðlilegt að láta þessa tvo kvarða vinna saman til að meta hvort að sveitarfélag sé af heppilegri stærð, ef menn vilja á annað borð fara í að meta það með einhverjum mælanlegum hætti.

 

Í grein sem ég sendi inn á BB.is fyrir 12 árum, bar ég saman hugsunina á bak við lámarksíbúafjölda sveitarfélaga og lágmarksíbúafjölda þjóðríkja og komst ég ma svona að orði:  „Sýnt þykir að alvarleg mismunun milli þegna í Evrópu, getur falist í því þegar sumar þjóðir eru hreinlega alltof smáar til að geta haldið uppi ásættanlegri almannaþjónustu, eðlilegum gjaldmiðli, trúverðugri utanríkisstefnu, spillingarlitlu stjórnmála- og embættismannakerfi og stöðugt hagkerfi með stórum og dreifðum hópi fjárfesta.  Búast má við talsverðri breitingu á landamærum í Evrópu næstu árin, en búast er við að lámarksstærðin verði sett við 1 milljón þegna.“  Hvað þetta varðar, hefur skoðun mín ekkert breyst.  Minni ástæða er í raun til að sameina fámenn sveitarfélög en fámennar þjóðir.

 

Sameining og/eða samstarf sveitarfélaga verður að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum en ekki bara á höfðatölu. Fyrst og síðast á þó vilji íbúa að ráða ferð svo sem verið hefur.  Litlar eða engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hverju sameiningar sveitarfélaga hafa skilað á Íslandi.  En ef við tökum nærtækt dæmi, Ísafjarðarbæ, hvaða tölur blasa þá við?  Jú aðallega sú að íbúafjöldinn hefur frá sameiningu 1996 fallið úr 4519, niður í 3788 núna í desember 2020.  Ég er ekki að segja að rekja megi íbúafækkunina eingöngu til sameiningar sveitarfélaga.  Staðbundin vandamál geta til dæmis verið ófullnæjandi staða samgöngumála, raforkumála og fjarskiptamála   (vel þekkt vandamál td. á Vestfjörðum) og hefur ekkert með íbúafjölda að gera.  Þó svo að allir Vestfirðir yrðu eitt sveitarfélag myndi það vandamál ekki leysast sjálfkrafa, því ríkið stýrir málaflokkinum.  Og málaflokkarnir (samgöngumál og raforkumál) er í of mikilli vanrækslu á Vestfjörðum, til að vera fluttur til sveitarfélganna. 

 

Það hefur stundum verið nefnt sem dæmi, að umfangsmikil sameining átti sér stað í Danmörku fyrir nokkrum árum.  Það er áhugavert að skoða það útfrá tölfræði.

Í Danmörku fækkaði sveitafélögum út 270 niður í 98 sveitarfélög árið 2005.  Danmörk er um 42.915mk2 þannig að eftir síðustu sameiningar er meðalstærð sveitarfélaga um 438km2 eða um 21km á kannt, ef við ímyndum okkur að sveitarfélögin séu ferningur.  Og Danmörk er flatt land með góðum samgöngum.

 

Til að Strandamenn nái að búa til 1000 manna sveitarfélag þyrfti að sameina alla Strandasýslu, Dalabyggð og Reykhólahrepp.  Þannig sveitarfélag yrði yfir 7000 km2.  (Sett í samhengi er Seltjarnarneskaupstaður 2,3km2 og Hveragerðisbær 11,4km2)  Er einhvað sem bendir til þess að sameinaðar Strandir-Dalir-Reykhólahreppur stæði betur fjárhagslega eða yrði auðveldari rekstrareining?  Og hvaða vit er í því að reyna að bera td. Seltjarnarnes saman við sveitarfélag sem er 2300 sinnum stærra að flatarmáli ?

 

Jafnframt má benda á;

– Að almennt er fjárhagsstaða minni sveitarfélaga betri en hinna stærri.

-​ Að vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum verður ekki leyst með sameiningu smárra sveitarfélaga. Tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verður heldur ekki leiðrétt þannig.

– Að vandamál á einum stað leysast ekki með sameiningum annarsstaðar. Vandamál ber að leysa þar sem þau eru til staðar, hvort sem eru brotalamir í þjónustu, t.d. leikskólaþjónustu eða fjárhagsvandræði af ýmsum orsökum.

-Að 1 kílómetri er áfram 1000 metrar þó sveitarfélög séu sameinuð og sameiningar leysa ekki þjónustuvanda eða neikvæða byggðaþróun í dreifbýli einar og sér.

-Að mörg minnstu sveitarfélögin fá mikið minni framlög pr. íbúa frá Jöfnunarsjóði en stór, jafnvel áður sameinuð sveitarfélög.

-Fjölgun lögbundinna verkefna sveitarfélaga getur því aðeins eflt sveitarstjórnarstigið, ef næjanlegir tekjustofnar fylgja með, það er hinsvegar ekki hin almenna reynsla sveitarfélaga.  Því má á ákveðinn hátt halda fram að tilflutningur verkefna frá ríkinu geti hafi til þessa, veikt sveitarfélög og sveitarstjórnastigið.  Aukin velta sveitarfélaga er ekkert endilega til marks um aukið afl, ef rekstur sveitarfélaganna verður viðkvæmari og afkoman verri.

 

Þá má líka benda á að með því að setja inn ákvæði um lágmaks íbúafjölda, er ekki eingöngu verið að þvinga minni sveitarfélög í sameiningu, heldur einnig nærliggjandi stærri sveitarfélög sem eru mörg hver yfir ætluðu marki um íbúafjölda.

 

ps.  Skýringin á nýkomnum áhuga​ Daníels á sameiningu er tiltölulega einföld.  Honum vantar þessar 1200 milljónir, sem ráðherra henti fram sem loforði, til að stoppa í gatið á 4 ára fjárfestingaráætluninni  !

 

DEILA