Fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í gærkvöldi lágu tillögur um að selja tvær íbúðir í Sindragötu 4 á fyrstu hæð fyrir 22,5 og 22,6 milljónir króna. Að því gefnu að bæjarstjórn hafi samþykkt söluna er búið að selja tólf íbúðir af þrettán í húsinu.
Á fyrstu hæð hússins eru fimm íbúðir, jafnmargar á annarri hæð og þrjár íbúðir á þriðju hæð. Íbúðirnar eru frá 52 fermetrum að 140 fermetrum að stærð með bílskúr.
Bygging hússins hófst með útboði í maí 2018 og var þá gert ráð fyrir að því yrði lokið í lok árs 2019.
Vestfirskir verktakar ehf önnuðust byggingu hússins fyrir Ísafjarðarbæ. Fasteignasala Vestfjarða á Ísafirði sá um söluna á íbúðunum.
Upphaflega var áætlað að 11 íbúðir yrðu ætlaðar voru fólki með fötlun, eldri borgurum og skjólstæðingum félagsþjónustu sveitarfélagsins og fékkst stofnframlag frá ríkinu upp á 56,8 milljónir króna vegna þeirra.
Í skilyrðum Íbúðalánasjóðs fyrir hönd ríkisins var hámark 308 m.kr. á byggingarkostnað en áætlanir bæjarins voru í fyrra upp á 359 m.kr. Ísafjarðarbær ákvað að hætta við að þiggja stofnframlögin og setti allar íbúðirnar í almenna sölu.
Það hefur gengið vel að selja íbúðirnar og eru 12 selda af 13 eins og fyrr greinir.